Sundfólkið Einar Margeir Ágústsson og Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir úr Sundfélagi Akraness stóðu sig frábærlega á World Cup mótinu í Toronto um helgina. 

Einar Margeir náði EM-lágmörkum í öllum sínum greinum og bætti jafnframt tvö Akranesmet.

Í 100 m bringusundi synti hann á 58,56 sek. og varð í 10. sæti. Þetta var nýtt Akranesmet – gamla metið átti hann sjálfur, 59,43 sek.

Í 50 m bringusundi synti hann á 27,10 sek. og varð í 11. sæti, einnig nýtt Akranesmet (gamla metið var 27,17 sek).

Í 200 m bringusundi synti hann á 2:10,46 og varð 11.sæti , rétt við sinn besta tíma.

Einar Margeir heldur áfram að bæta sig og festa sig í sessi á alþjóðavettvangi, þar sem hann keppir nú reglulega við sterkustu sundmenn heims.

Guðbjörg Bjartey átti einnig glæsilegt mót og tók þátt á World Cup í fyrsta sinn. Hún náði NM-lágmarki í 50m skriðsundi á tímanum 26,00 sek., sem skilaði henni 28. sæti.

Hún bætti sinn besta tíma í 200 m skriðsundi á 2:06,24 sek., og synti mjög nálægt sínum besta tíma í 100 m skriðsundi á tímanum 57,28 sek., sem dugði í 31. sæti.

Mótið var afar sterkt voru 8 heimsmet bætt yfir helgina, sem undirstrikar frábært gengi íslensku sundmannanna í hörðu alþjóðlegu samkeppnisumhverfi.

Keppendur Íslands á World Cup í Toronto voru:

Birnir Freyr Hálfdánarson (SH)
Einar Margeir Ágústsson (ÍA)
Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir (ÍA)
Guðmundur Leó Rafnsson (ÍRB)
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir (SH)
Símon Elías Statkevicius (SH)
Snorri Dagur Einarsson (SH)
Stefán Elías Davíðsson Berman (ÍRB)

Þjálfari hópsins var Skagamaðurinn Eyleifur Ísak Jóhannsson.