Áformað er að reka álver Norðuráls á Grundartanga á fullum afköstum að loknum viðgerðum á verksmiðjunni, þar sem bilun varð í síðustu viku með þeim afleiðingum að framleiðsla í hluta verksmiðjunnar stöðvaðist. Ekki eru uppi áform um uppsagnir fastráðins starfsfólks. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Þessar upplýsingar fengu sveitarstjórnarfulltrúar Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar, en þeir funduðu með forstjóra Norðuráls sl. þriðjudag, þar sem staðan í álverinu var til umræðu. Auk sveitarstjórnarfulltrúanna sátu nokkrir þingmenn Norðvesturkjördæmis fundinn.

Á fundinum kom m.a. fram að ekki væru uppi nein áform um uppsagnir fastráðins starfsfólks, en mörg verkefni bíða úrlausnar í álverinu og þá ekki síst standsetning verksmiðjunnar á nýjan leik. Mikilvægt væri að halda í vant og þjálfað starfsfólk.
Nánar í Morgunblaðinu.






