Bæjarráð Akraness fór yfir drög að fjárhagsáætlun fyrir tímabilið 2027-2029 á fundi sínum þann 30. október s.l. Fyrri umræða um áætlunina verður í bæjarstjórn þann 11. nóvember.
Á fundinum þann 30. október kom fram að bæjarráð gerir verulegar athugasemdir við það hversu seint áætlanir frá Jöfnunarsjóði berast sveitarfélaginu. Ráðið bendir á að núverandi fyrirkomulag á skilum Jöfnunarsjóðs á áætluðum fjárveitingum komandi fjárhagsár gerir sveitarfélögum í raun ómögulegt að standast tilvitnaðar lagakröfur.

Nánar í textanum hér fyrir neðan úr fundargerð.
„Bæjarráð gerir verulegar athugasemdir við það hversu seint áætlanir frá Jöfnunarsjóði berast sveitarfélaginu og í ár er þetta sérstaklega erfitt þar sem bæði er búið að gera viðamiklar breytingar á úthlutunarforsendum sjóðsins sbr. nýsamþykkt lög þar að lútandi og því til viðbótar liggja ekki fyrir fjárhagslegar upplýsingar vegna ársins 2026 frá mennta- og barnamálaráðuneytinu vegna málefna barna með fjölþættan vanda en sem stendur er verið að kalla eftir upplýsingum frá einstökum sveitarfélögum vegna ársins 2025 og ekki búið að greiða frá 1. júlí sl. sem er það tímamark sem ríkið skv. samkomulagi við Samband íslenska sveitarfélaga ber að miðað við varðandi yfirtöku verkefnisins hvað fjármögnun varðar.
Bæjarráð í góðri samvinnu við stjórnendur Akraneskaupstaðar hefur lagt áherslu á að flýta sem mest fjárhagsáætlunarferlinu til að ná sem best utan um þær hagstærðir sem skipta grundvallarmáli við áætlunargerðina og sem kunnugt er ber sveitarfélögum að hafa lokið fyrri umræðu um fjárhagsáætlun fyrir 1. nóvember ár hvert og síðari umræðu fyrir 15. desember ár hvert. Núverandi fyrirkomulag á skilum Jöfnunarsjóðs á áætluðum fjárveitingum komandi fjárhagsár gerir sveitarfélögum í raun ómögulegt að standast tilvitnaðar lagakröfur.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma þessum ábendingum á framfæri við hlutaðeiganda ráhðerra.“
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga? – hvað er það?
Tekjur Akraneskaupstaðar á árinu 2024 voru rúmlega 13 milljarðar kr. Framlag úr jöfnunarsjóði var um 2,7 milljarðar kr. sem eru um 20% af tekjum kaupstaðarins.
Hlutverk Jöfnunarsjóðs er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. Þá greiðir sjóðurinn framlög til samtaka sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra aðila í samræmi við ákvæði laga.








