Karlalið ÍA í körfuknattleik lék sinn fyrsta leik í AvAir höllinni í kvöld gegn Íslandsmeistaralið Vals í 6. umferð Bestu deildarinnar á Íslandsmótinu.
Stemningin var frábær í nýju og glæsilegu íþróttahúsi við Jaðarsbakka – og gefur frumsýningin góð fyrirheit um framhaldið. Bæði hjá stuðningsfólki ÍA og leikmönnum.

Valsmenn lönduðu sigri – 83-81. Tölfræði leiksins er hér.
Leikurinn var jafn og spennandi þrátt fyrir að gestirnir væru með 9 stiga forskot í hálfleik, 49:38. Fjórum stigum munaði eftir þriðja leikhluta, 64:60 fyrir Val. Og lokakaflinn var spennandi eins og áður segir en Íslandsmeistararnir höfðu betur.
Styrmir Jónasson skoraði 17 stig fyrir ÍA og skoraði alls 5 þriggja stiga körfur úr 9 tilraunum, 55% nýting sem er frábært.
Gojko Zudzum hélt áfram að stimpla sig inn sem einn besti leikmaður deildarinnar, með 17 stig, 18 fráköst og 5 stoðsendingar. Magnaður leikmaður.
Ilija Dokovic sýndi góða takta eftir skelfilega frumraun sína gegn KR á dögunum. Hann skoraði 15 stig, allt úr þriggja stiga skotum.
Þetta var fyrsti leikur ÍA eftir að Bandaríkjamaðurinn Darnell Cowart var leystur undan samningi – en hann var á meðal áhorfenda í kvöld.
Skagamenn eru að leita eftir leikmanni með bandarískt ríkisfang en það gæti tekið nokkrar vikur að fá atvinnuleyfi fyrir nýjan leikmann.
Myndasafn frá leiknum er hér – safnið er í vinnslu og uppfærist í kvöld.









