Bæjarstjórn Akraness fjallaði í gær á fundi sínum um tillögur um álagningu gjalda fyrir árið 2026.
Endanleg ákvörðun verður tekin þegar síðari umræða fer fram á næsta bæjarstjórnarfundi – en í ljósi sögunnar er ólíklegt að miklar breytingar verði á tillögu bæjarstjóra um álagningu gjalda.

Álagt útsvar vegna launatekna á árinu 2026 verður 14,97 % sem er hámarkshlutfall.
Á árinu 2025 voru 12 af alls 62 sveitarfélögum sem nýttu ekki að fullu heimild til álagningar útsvars, eða 14,97%. Hvalfjarðarsveit var þar á meðal með 14,14%. Listinn yfir þessi 12 sveitarfélög er þannig:
Kópavogsbær (14,93%), Hafnarfjarðarbær (14,93%), Fjallabyggð (14,93%), Vestmannaeyjabær (14,91%), Garðabær (14,71%), Seltjarnarnesbær (14,54%), Tjörneshreppur (14,45%), Kjósarhreppur (14,45%), Hvalfjarðarsveit (14,14%), Skorradalshreppur (13,5%), Grímsnes- og Grafningshreppur (12,89%) og Fljótsdalshreppur (12,44%). (Heimild Viðskiptblaðið).
Lagt er til að þjónustugjaldskrá kaupstaðarins hækki um 3,5% í byrjun næsta árs. Sjá nánar í myndunum hér fyrir neðan.
Hvað er útsvar?
Útsvar er einn af tekjustofnum sveitarfélaga og tekjur af því renna því ekki í ríkissjóð. Ríkisskattstjóri annast hins vegar álagningu og innheimtu útsvars. Útsvar er greitt í staðgreiðslu á tekjuári til bráðabirgða en launagreiðendur halda staðgreiðslunni eftir og skila í ríkissjóð. Endanleg álagning útsvars fer hins vegar fram eftir á.
Allir menn, sem eru tekjuskattsskyldir, greiða útsvar af tekjum sínum til sveitarfélags. Stofn útsvars, þ.e. sú fjárhæð sem útsvar er reiknað af, er sá hinn sami og í tilviki tekjuskatts, þ.e. hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem viðkomandi hlotnast og metin verða til peningaverðs hvaðan sem þær stafa eða í hvaða formi þær eru að teknu tilliti til sömu undantekninga og takmarkana og eiga við í tilviki tekjuskatts.













