Vegna gruns um að loftgæði í Grundaseli séu ekki eins og best verði á kosið hefur allt skólastarf 1. bekkjar verið flutt yfir í aðalbyggingu Grundaskóla. Þetta kemur fram í svari frá skólastjóra Grundaskóla. 

Sigurður Arnar Sigurðsson skólastjóri segir að starfsmenn skipulags og umhverfissviðs Akraneskaupstaðar séu að kanna ástand byggingarinnar – en húsið var upphaflega byggt undir starfssemi leikskólans Garðasels. 

Sérfræðingar frá Verkís hafa skoðað húseignina og er beðið frekari gagna frá þeim og þá verða næstu skref ákveðin s.s. varðandi hugsanlegar endurbætur.

„Í ljósi þess að umrædd skoðun gæti truflað kennslu var ákveðið að færa 1. bekk úr húsnæðinu á meðan athugun færi fram. Hins vegar var ákveðið að halda frístundarstarfinu áfram enda á fyrrgreind skoðun á húsnæðinu ekki að hafa áhrif á þá starfsemi,“ segir Sigurður Arnar við Skagafréttir.