Íbúar í Búðardal og nágrenni geta nú fengið matarpantanir sendar heim að dyrum í gegnum Snjallverslun Krónunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Pantanir verða teknar saman í verslun Krónunnar á Akranesi og verða fyrst um sinn keyrðar vikulega í Búðardal, með viðkomu á Bifröst og sveitabæjum á leiðinni..

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar er afar ánægð með að geta nú boðið íbúum Búðardals upp á allt það úrval sem Krónan á Akranesi hefur upp á að bjóða, beint heim að dyrum.

„Íbúar og fyrirtæki í Búðardal og nágrenni hafa lengi kallað eftir lágvöruverðsverslun á svæðið enda er langt að fara í slíka verslun. Við hjá Krónunni getum nú í krafti stærðar okkar nýtt verslanir okkar á landsbyggðinni, þar á meðal Krónuna á Akranesi, til að þjónusta eins marga og við mögulega getum með aðstoð þeirrar tækni sem felst í Snjallverslun okkar. Frá Akranesi í Búðardal eru 116 kílómetrar aðra leiðina og mun þjónustan spara íbúum ansi margar bílferðir, kostnað og tíma í átt að besta verðinu og úrvalinu. Við erum spennt að sjá viðtökurnar á svæðinu en færri gátu pantað en vildu í fyrstu ferðina okkar,“ segir Guðrún.

Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri Dalabyggðar fagnar þessari þjónustu Krónunnar í Búðardal, þótt ekki sé um hefðbundna matvöruverslun að ræða. Í Búðardal búi um 250 íbúar og í Dalabyggð allri um 650 íbúar sem hafa beðið lengi eftir þjónustu sem þessari.

„Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur í lengri tíma leitað lausnar þegar kemur að auknu aðgengi íbúa að matvælum og öðrum nauðsynjavörum á lágu verði. Krónan hefur nú svarað kallinu upp að vissu marki með því að bjóða íbúum, fyrirtækjum og stofnunum innan sveitarfélagsins að fá matarpantanir sendar heim sem er ákveðin búbót fyrir alla sem hér búa og vonandi byrjunin á einhverju stærra. Við bjóðum Krónuna velkomna í Dalabyggð og vonum að eftirspurnin verði slík að fjölga megi ferðum í viku hverri.“ segir Bjarki.

Á undanförnum árum hefur Krónan markvisst byggt upp þjónustu við landsbyggðina með snjöllum lausnum og geta nú rúmlega 65 þúsund íbúar á landsbyggðinni pantað matvöru í gegnum Krónuappið og vef Krónunnar.