Dibaji Walker er nýr leikmaður körfuknattleiksliðs ÍA – en Bandaríkjamaðurinn lék með nýliðum Ármanns í byrjun tímabilsins í Bónus-deildinni. 

Walker er ætlað að fylla skarðið sem Darnell Cowart skilur eftir sig en samningi hans við ÍA var sagt upp eftir 5 umferðir. 

Walker lék fyrstu fjóra leiki tímabilsins með Ármenningum sem eru nýliðar í deild þeirra bestu. Þar skoraði hann 14 stig og tók 5 fráköst að meðaltali í leik en Walker er 2.06 m. á hæð og leikur ýmist sem miðherji eða framherji. 

Dibaji er sonur Samaki Walker sem varð NBA meistari árið 2002 með LA Lakers en bróðir Dibaji, Jabari Walker leikur í NBA deildinni með Portland Trailblazers.