Skagamenn skrifuðu nýjan kafla í sögu körfuboltans á Akranesi í gær með 96-89 sigri gegn ÍR-ingum í Bónus- deildinni, efstu deild Íslandsmótsins. 

Fyrsti sigurleikur ÍA í nýju AvAir-höllinni staðreynd – og stuðningsmenn ÍA héldu áfram að búa til frábæra stemningu í nýja mannvirkinu. 

Skagamenn sýndu oft á tíðum sínar bestu hliðar og liðið er að ná betur saman, góð samvinna var einkenni liðsins. 

ÍA er í 8. sæti deildarinnar en átta efstu liðin af alls tólf komast í úrslitakeppnina vorið 2026 og tvö neðstu liðin falla í 1. deild. 

Styrmir Jónasson var mjög góður en hann skoraði 19 stig,  þar af 5 þriggja stiga körfur úr aðeins 8 skotum. 

Nýr bandarískur leikmaður, Dibaji Walker, lék sinn fyrsta leik með ÍA. Hann sýndi oft á tíðum góð tilþrif en lenti í vandræðum í varnarleiknum og var í villuvandræðum megnið af leiknum. Walker á án efa eftir að styrkja leik ÍA miðað við leikstíl liðsins um þessar mundir. Hann skoraði alls 11 stig og tók 3 fráköst. 

Miðherjinn Gojko Zudzum sýndi enn og aftur að hann er einn besti leikmaður deildarinnar. Hann skoraði 17 stig og tók 14 fráköst og var öflugur í varnarleiknum.

Josip Barnjak lék sinn besta leik frá því hann kom til ÍA en hann skoraði 23 stig, tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. 

Ilja Dokovic var með slaka skotnýtingu og hitti aðeins úr 1 skot af alls 8. Hann stýrði liðinu hinsvegar vel og gaf flestar stoðsendingar eða 7 alls.