
Krónan hefur nú valið þau fjórtán verkefni sem hljóta samfélagsstyrk þeirra í ár og hlaut foreldrafélag leikskólans Akrasels á Akranesi hæsta fjárstyrkinn þetta árið, eða 750 þúsund krónur. Upphæðin mun nýtast í uppbyggingu sparkvallar á lóð leikskólans. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Styrkir vináttu og félagsfærni barnanna með sameiginlegum leik

Foreldrafélag Akrasels mun taka virkan þátt í vinnunni við uppsetningu vallarins, ásamt starfsfólki leikskólans og mun styrkupphæðin verða notuð í kaup á efni og aðföngum við undirbúning lóðar, umgjörð og nauðsynlegan öryggisbúnað.
„Við erum Krónunni afar þakklát fyrir að sjá hversu mikilvægt verkefnið er okkar samfélagi. Sparkvellinum er meðal annars ætlað að stuðla að aukinni hreyfingu og vellíðan barnanna okkar, skapa jákvætt samfélagslegt rými sem nýtist bæði í leik og skipulögðum íþróttum og síðast en ekki síst að styrkja vináttu og félagsfærni barnanna með sameiginlegum leik. Lokamarkmiðið er að búa til öruggan, aðgengilegan og skemmtilegan leikvöll sem börnin á leikskólanum og í nærsamfélaginu geta notið saman,“ segir Guðmundur Brynjar Júlíusson, foreldri í Akraseli.
Áhersla á umhverfisvitund, hollustu og hreyfingu
Krónan hefur frá árinu 2013 veitt samfélagsstyrki en á síðustu árum hefur áhersla verið lögð á að ýta undir verkefni sem stuðla að umhverfisvitund eða aukinni lýðheilsu þar sem sjónum er einkum beint að ungu kynslóðinni. Að auki veitir Krónan styrki til kaupa á svokölluðum Bambahúsum sem eru umhverfisvæn gróðurhús sem nýtist einna helst til að rækta grænmeti allt árið um kring, fræða um flest sem við kemur ræktun grænmetis og mikilvægi þess að vita hvaðan einstök matvæli koma.
Styrkhafar í ár eru:
- Foreldrafélag leikskólans Akrasels á Akranesi fyrir sparkvöll á lóð leikskólans
- Blakdeild Dímons/Heklu á Hvolsvelli fyrir byrjendanámskeið í blaki fyrir konur 18 ára og eldri
- Fimleikafélagið Rán í Vestmannaeyjum fyrir eflingu og stuðning við iðkun ungmenna á aldrinum 10 til18 ára
- Danssetrið á Akureyri fyrir kaupum á búnaði fyrir barnajóga og danskennslu.
- Hjólafélagið Fönn á Reyðarfirði fyrir uppsetningu á pumptrack hjólabraut í Neskaupsstað
- Gigtarfélag Íslands fyrir hreyfihóptíma ætluðum unglingum og ungmennum með gigt
- Unglingadeildin Björgúlfur innan Björgunarsveitar Hafnarfjarðar fyrir kaupum á klifurbúnaði fyrir kennslu og æfingar unglingahóps
- Reiðskólinn Hestasnilld fyrir tengslanámskeið fyrir börn á aldrinum 2 til 5 ára
- Reiðhjólabændur sem gera upp gömul hjól sem er svo dreift til efnaminni fjölskyldna
- Rafíþróttasamband Íslands fyrir verkefnið Hreyfing í leik sem stuðlar að bættri líkamlegri og andlegri heilsu barna og unglinga sem stunda tölvuleiki og rafíþróttir
- Kerhólsskóli á Borg í Grímsnesi fyrir kaupum á Bambahúsi til grænmetisræktunar
- Leikskólinn Mánaland í Vík í Mýrdal fyrir kaupum á Bambahúsi til grænmetisræktunar
- Leikskólinn Holt í Njarðvík fyrir kaupum á Bambahúsi til grænmetisræktunar
- Hlíðabær, dagþjálfun fyrir þá sem greinst hafa með heilabilunarsjúkdóm fyrir kaupum á Bambahúsi til grænmetisræktunar.










