Aðsend grein frá Hannesi S. Jónssyni.  

Íþróttafólkið okkar á landsbyggðinni þarf að ferðast mun meira til keppni en þau sem eru höfuðborgarsvæðinu og þarf af leiðandi er ferðakostnaður og fjarvera frá heimili mun meiri hjá þeim. Íþróttafélögin og iðkendur félaganna á landsbyggðinni verða þannig fyrir töluverðum ferðakostnaði við að taka þátt í mótum eða einstaka leikjum. Einnig bætist við gisti og  uppihaldskostnaður hjá þeim félögum og einstaklingum sem þurfa að leggja á sig þessi ferðlög. 

Íþróttafélög utan höfuðborgarsvæðisins og þeirra sjálfboðaliðar leggja á sig mikla vinnu eingöngu við að fjárafla fyrir keppnisferðum ásamt því að sinna hinu hefðbundna íþróttastarfi.

Ferðasjóður íþróttafélaganna er því íþróttahreyfingunni, íþróttafólki á landsbyggðinni og fjölskyldum þeirra afar mikilvægur en því miður þá hefur verið lítið um hækkanir á framlögum ríkisins í þennan mikilvæga sjóð. Núna verður breyting á enda vinnur ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttir í því að draga úr ójöfnuði.  

Meirihluti fjárlaganefnar lagði til á milli fyrstu og annarar umræðu fjárlaga 2026 að framlag ríksisvaldins verði hækkað um 100 milljónir eða næstum því 100% aukning á milli ára í þennan mikilvæga sjóð.  Þessi tillaga meirhluta nefndarinnar var ein af mörgum góðum breytingartilögum sem samþykkt var á Alþingi síðasta föstudag að lokinni annarri umræðu um fjárlögin.  Frá stofnum ferðasjóðsins hefur Íþrótta-og Ólympíusamband Íslands ÍSÍ  séð um að setja sjóðnum reglur og úthlutun fyrir hönd ríkisins. 

Þessi aukning mun skila sér beint til þeirra sem iðka íþróttir á landsbyggðinni og lækka þannig kostnað við íþróttaiðkun barna. Með þessari mikilvægu hækkun á framlagi ríksisvaldsins í ferðasjóð íþróttafélaga er stigið stórt skref í að jafna aðstöðumun fjölskyldna á landsbyggðinni til þátttöku í íþróttum og keppni.

Þessi mikilvæga hækkun á framlagi í ferðasjóð íþróttafélaga kemur til framkvæmda strax við fyrstu fjárlög ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttir og sýnir þannig að ríkisstjórnin hlustar og skilur íþróttaheyfinguna og mun halda áfram að sýna það í verki á næstu árum 

Höfundur er varaþingmaður Samfylkingarinnar í Norðvestur kjördæmi.