
Golfsamband Íslands hefur áhuga á samstarfi við Golfklúbbinn Leyni og Akraneskaupstað varðandi stofnun „Þjóðarleikvangs framtíðarinnar.“
Fulltrúar GSÍ og Leynis hafa nú þegar fundað með bæjarráði – og mun skóla og frístundaráð taka málið til umfjöllunar.

Ekki kemur fram í fundargerð bæjarráðs hvaða hugmyndir GSÍ hefur um slíkan leikvang.
Einar Brandsson, félagi í Leyni, og varaforseti bæjarstjórnar, sagði á aðalfundi Leynis á dögunum að hann væri á þeirri skoðun að stækka ætti golfvöllinn á Garðavelli úr 18 í 36 holur. Og Garðavöllur tæki við því hlutverki að vera þjóðarleikvangur golfíþróttarinnar.
Eins og áður segir hefur ekki komið fram hvert hlutverk „Þjóðarleikvangs framtíðarinnar“ á að vera.
Ríkisvaldið gaf á sínum tíma út þá yfirlýsingu að taka þátt í uppbyggingu og rekstri á slíkum mannvirkjum. Ef þetta verður niðurstaðan kæmi verulegt fjármagn frá ríkinu í þetta verkefni.
Til upplýsinga þá eru 23 Íslandsmót á keppnisdagskrá GSÍ á næsta ári.
Gera má ráð fyrir að Þjóðarleikvangur framtíðarinnar tæki að sér framkvæmd meirihluta þeirra móta sem flest standa yfir í 2-4 daga.










