Eigandi verslunarhúsnæðis við Kirkjubraut 4-6 hefur fengið grænt ljós frá skipulags – og umhverfisráði Akraneskaupstaðar þess efnis að breyta hluta húsnæðisins í gistiheimili.

Ráðið hafnaði slíkri beiðni í febrúar 2025 en í kjölfarið var umsókninni breytt – og sú tillaga fékk brautargengi í ráðinu. 

Erindið á eftir að fara í gegnum bæjarráð og bæjarstjórn.  

Kirkjubraut 4-6 er í eigu Daníels Daníelssonar – en þar var Nína verslun til húsa þar til verslunin flutti í nýrra húsnæði við Kirkjubraut 12 í mars 2019.

Stefnt er að því að opna gistiheimili með allt að 8 herbergjum – og verður inngangur frá Suðurgötu inn í gistinguna.

Gengið verður inn í verslunar – og skrifstofurými frá Kirkjubraut.

Eins og staðan er á Akranesi núna þá er eitt gistiheimili í rekstri við Stillholt þar sem leyfi er fyrir 26 einstaklingum í gistingu.

Engar athugasemdir bárust frá íbúum í nágrenni við húsnæðið í grenndarkynningu sem fram fór í nóvember og desember á síðasta ári.