Það var heldur betur kuldalegt í morgun í Jaðarsbakkalaug þegar sundfólkið úr Sundfélagi Akraness mættu á morgunæfingarnar. Í færslu á fésbókarsíðu Sundfélagsins segir m.a. að 11 ára krakkarnir hafi ekki látið vind, öldur og -1 gráðu stöðva sig til þess að ná árangri.
„Þau synda eins og vindurinn við hliðina á Brynhildi Traustadóttur sem lætur heldur ekkert stoppa sig í undirbúningi fyrir Norðurlandameistaramót sem fram fer í byrjun desember. Þetta eru sannkallaðir jaxlar.“
Trausti Gylfason formaður Sundfélags Akraness skorar á forsvarsmenn Akraneskaupstaðar að líta sér nær og koma sundaðstöðu Skagamanna í viðunandi horf.
„Aðstæður á Akranesi í rokinu í dag ekki boðlegar fyrir fólk sem er að undirbúa sig fyrir verkefni fyrir hönd þjóðarinnar.
Ráðamenn Akraneskaupstaðar þurfa að fara líta sér nær og koma sundaðstöðunni í þannig horf að það sé hægt að synda sumar, vetur, vor og haust. Þá er ég ekki að höfða aðeins til þarfa Sundfélagsins heldur líka almennings,“ skrifar Trausti.