Skagakonan Hallbera Guðný Gísladóttir samdi á dögunum við Val og mun hún leika með liðinu næstu þrjú árin. Hallbera kemur til liðsins frá Svíþjóð eftir eins árs veru hjá Djurgården í Stokkhólmi. Í viðtali við mbl.is segir Hallbera að það hafi togað í hana að komast inn á vinnumarkaðinn á Íslandi – en hún ætlar sér samt sem áður stóra hluti í fótboltanum á næstu árum. Hallbera segir í viðtalinu að hún sjái það ekki fyrir sér að fara á ný í atvinnumennsku en hún hefur m.a. leikið í Svíþjóð og Ítalíu.
„Þessi tími minn ytra var góður en nú er ég komin með fasta vinnu og þarf að velta fyrir mér framtíðinni, lífinu sem tekur við þegar farið er að styttast í fótboltaferlinum. Ég er spennt fyrir að koma heim og vera meira með mínu fólki,“ segir Hallbera í viðtali við mbl.is.
Hún á 90 landsleiki að baki og verður í aðalhlutverki með liðinu í undankeppni HM en sú keppni er næsta verkefni landsliðsins.
„Markmiðið er halda áfram af krafti með landsliðinu. Ef við höldum rétt á spilunum þá getur eitthvað skemmtilegt gerst sem mig langar að vera þátttakandi í.“