„Ég veit ekki hvernig best er að orða þetta því ég á ekki orð til að lýsa þessu. Þetta er bara magnað, dásamlegt og ég get seint þakkað öllu þessu fólki sem er að hjálpa mér. Þessi stuðningur er ómetanlegur og gerir mér kleift að takast betur á við veikindin. Það er ekki sjálfgefið að fólk gerir slíkt og ég er óendanlega þakklátur fyrir þetta,“ sagði Kristinn Jens Kristinsson í samtali við Skagafréttir í Útvarpi Akraness um s.l. helgi.
Laugardaginn 9. desember ætla vinir Kidda Jens að standa fyrir styrktarleik í Akraneshöllinni þar sem að ÍA og Íslandsmeistaralið Vals mætast í mfl. karla í fótbolta. Þar verður gæðafótbolti í boði en vinir Kidda verða líka með kökuhlaðborð, ásamt kaffi og kakó á leiknum.
Það kostar 2.000 kr. inn á leikinn og án efa verður góð stemning á leiknum.
Það er hægt að hlusta á viðtalið með því að smella á myndina hér fyrir neðan. Viðtalið hefst eftir um 37 sekúndum eftir að ýtt er á play takkann.
En hver er Kiddi Jens og hvaða sjúkdóm er hann að glíma við?
„Ég flyt hingað á Akranes frá Ólafsfirði 1979 og þá á sjötta ári. Ég fæddist á Ísafirði og ég bjó um tíma á Suðureyri. Foreldrar mínir eru Kristinn Þ. Jensson og Elsa Halldórsdóttir. Pabbi lést fyrir fjórum árum en hann var verkstjóri í HB og vann síðar í mörg ár hjá Olís og var alltaf kallaður Kiddi í Olís. Mamma kemur úr stórri fjölskyldu héðan af Akranesi, hún átti 15 systkini, sem eru kennd við húsið Svanahlíð. Mamma er hætt að vinna en hún var lengi hjá HB og vann síðustu árin á Sjúkrahúsinu.“
Mér leið vel á Akranesi
og það var frábært að flytja hingað
Kiddi Jens flutti í húsið Melstað við Melteig þegar hann kom á Skagann sem krakki og hann kynntist mörgum góðum drengjum úr nágrenninu.
„Ég fór í Brekkubæjarskóla og námið gekk svona upp og niður. Mér leið vel á Akranesi og það var frábært að flytja hingað.
Ég kynntist bræðrunum Þórði Þórðarsyni og Stefáni Þórðarsyni fljótlega eftir að við fluttum. Við vorum mikið saman enda nágrannar. Sturlaugur og Pálmi Haraldssynir léku einnig mikið við okkur. Merkurtúnið var þar miðja alheimsins, fótbolta alla daga, veiðiferðir á bryggjuna og einnig fótbolta á Haraldartúninu. Þetta var skemmtilegur hópur og 1973 árgangurinn sem ég er í var öflugur í fótbolta. Þar stóðu upp úr Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir, Sturlaugur Haraldsson, Lárus Orri Sigurðsson og Þórður Guðjónsson. Við unnum marga titla en ég var aldrei eins góður og þeir – en ég er samt betri en sonur minn Aron Ingi Kristinsson,“ segir Kiddi Jens og hlær.
Margir þekktir þjálfarar komu að þjálfun 1973 árgangsins
„Ég man sérstaklega eftir því þegar við vorum í 3. flokki og Matthías Hallgrímsson var að þjálfa okkur. Hann átti þá bíl sem var eins og bitabox og þetta var rafmagnsbíll. Hann keyrði stundum af stað á þessum bíl og við áttum að elta í úthlaupunum. Hann fór út um allt á bílnum, langt út fyrir bæinn, alveg upp að steypustöðinni. Hörður Helgason var einnig þjálfari hjá okkur og Sigurður Halldórsson (Siggi Donna).“
Ég var svona svipað góður utan vallar og kappar á borð við George Best og Paul Gasgoigne
Fótboltaferill Kidda Jens varð ekki langur en hann var betri utan vallar og 19 ára hætti hann að æfa.
„Ég var svona svipað góður utan vallar og kappar á borð við George Best og Paul Gasgoigne. Það var annað sem togaði í mig á þessum árum og á endanum þá gafst ég upp á þeim lífsstí. Ég sé ekki eftir neinu og þetta voru skemmtilegir tímar.“
Betri en Aron Ingi í fótbolta
Kiddi Jens á son sem er fæddur árið 1998, Aron Inga sem er leikmaður í mfl. ÍA. Aron Ingi hefur komið við sögu hjá yngri landsliðum Íslands. Feðgarnir eru samrýmdir og grjótharðir stuðningsmenn Manchester United á Englandi.
„Ég hef þroskast mikið og róast. Ég tók því mjög illa ef gengi Man Utd var ekki gott, ég var í raun léttklikkaður á því sviði. Man Utd búningurinn minn er gamall og passar ekki lengur á mig – ég er því bara rólegur yfir þessu öllu í dag miðað við áður.“
Árið 1999 greindist Kiddi Jens með æxli í hné og fór þá í sína fyrstu aðgerða.
„Í fyrstu var talið að ég væri með skemmdan liðþófa. Ég fór í slíka aðgerð en þegar ég vaknaði sýndi læknirinn mér eitthvað hvítt sem var á stærð við kartöflu. Ég hélt að þetta væri liðþófinn en þá var þetta æxlið í hnénu. Þetta var upphafið og frá þeim tíma hef ég farið í 37 aðgerðir og óteljandi lyfja og sprautumeðferðir. Þetta er krabbamein sem lýsir sér þannig að æxli vaxa í beinunum á mér og þá þarf að skera þau burt. Þau er góðkynja en samt illkynja því þau hætta aldrei að vaxa og dreifa sér. Ég er með sjö æxli núna í beinunum sem þarf að fjarlægja. Þau ógna beinunum, brjóta sér leið í gegnum bein og brjósk, og það sér ekki fyrir endann á þessu.“
Þetta er krabbamein sem lýsir sér þannig að æxli vaxa í beinunum á mér og þá þarf að skera þau burt
Kiddi Jens segir að hann sé ekki leiður eða pirraður yfir ástandinu. „Ég hef vissulega áhyggjur af því að missa útlim, en ég hef lært að lifa með þessu. Á fyrstu árunum var ég pirraður og neikvæður. Í dag veit ég að þetta mun fylgja mér og ég verð bara að berjast við þetta.“
Það skiptir mig miklu máli að finna þá tilfinningu að maður sé að gera eitthvað gagn
Á góðum degi nær Kiddi Jens að ljúka við vinnudag í Olís við Esjubrautina þar sem er starfsmaður.
„Það skiptir mig miklu máli að finna þá tilfinningu að maður sé að gera eitthvað gagn. Í Olís er mikið fjör, margir iðnaðarmenn sem koma þar við, fá sér kaffi og smurt og ræða málin. Þetta er félagsmiðsstöð og þarna eru margir skemmtilegir spekingar sem gaman er að tala við. Ég er þarna á mínum forsendum og ef ég næ að vinna í heila viku þá er ég þakklátur,“ sagði Kristinn Jens Kristinsson við skagafrettir.is.