Íþróttabandalag Akraness hefur á undanförnum vikum og mánuðum verið með fjölbreytt framboð á fróðlegum fyrirlestrum og námskeiðum fyrir félagsmenn ÍA og aðra gesti. Þetta kraftmikla starf heldur áfram mánudaginn 12. mars þegar Hrafnhildur Lúthersdóttir kemur í heimsókn og fjallar um reynslu sína.
Sundkonan hætti nýlega að keppa í sundi en hún hefur á undanförnum árum verið í fremstu röð á heimsvísu í bringusundi.
Hrafnhildur varð m.a. í sjötta sæti í 100 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu árið 2016. Hún vann til þrennra verðlauna á Evrópumeistaramótinu í London á Englandi árið 2016, þar sem hún fékk tvö silfurverðlaun og eitt brons.
Hrafnhildur mun fjalla um reynslu sína af því að stunda íþrótt á efsta stigi í heiminum.
Fyrirlestur Hrafnhildar verður í Hátíðarsal ÍA að Jaðarsbökkum, mánudaginn 12. mars kl. 20:15
Hún mun m.a. fjalla um:
• Hvað þarf til?
• Hvað er hægt að læra af þessu?
• Hvað gengur íþróttamaðurinn í gegnum?
• Mikilvægi stuðnings
Erindi Hrafnhildar á við íþróttaiðkendur í öllum greinum og eru því allir hvattir til að mæta.