„Það eru forréttindi að fá að vera hluti af þessu liði, þar sem allir þekkja sín hlutverk og leggja sitt af mörkum,“ segir Óskar Guðbrandsson við skagafrettir.is.
Skagamaðurinn er starfsmaður Knattspyrnusambands Íslands og sér um markaðs- og fjölmiðlamál fyrir KSÍ.
Frá vinstri: Sveinbjörn Brandsson, Björn Bergmann Sigurðarson, Óskar Guðbrandsson.
Óskar er einn af þremur Skagamönnum sem eru að störfum fyrir KSÍ þessa stundina á HM.
Björn Bergmann Sigurðarson er leikmaður Íslands og skrifaði hann nýjan kafla í knattspyrnusögu Akraness með innkomu sinni í 1-1 jafnteflisleik Íslands gegn Argentínu.
Sveinbjörn Brandsson læknir er einnig í teyminu – en hann hefur verið í læknateymi KSÍ um margra ára skeið.
Óskar var á árum áður einn fremsti sundmaður landsins og keppti fyrir hönd ÍA um margra ára tímabil. Hann þekkir því vel til keppnisíþrótta og hann finnur vel fyrir því hversu stórt afrek það var fyrir Ísland að ná jafntefli gegn Argentínu í fyrsta leik riðlakeppninnar.
„Það er að mörgu leiti ólýsanleg tilfinning að vera þátttakandi í þessu ævintýri sem í hugum svo margra er eitt stærsta afrekið í íþróttasögu landsins. Stemningin í hópnum er frábær,“ sagði Óskar að lokum.
Auglýsing