Mikill áhugi er á nýju starfi persónuverndarfulltrúa sem Akraneskaupstaður auglýsti til umsóknar í sumar. Umsóknarfrestur rann út 26. júlí s.l. og sóttu 12 aðilar um starfið.
Tveir þeirra drógu umsókn sína til baka og stendur ráðningarferlið yfir – segir í frétt á heimasíðu Akraneskaupstaðar. Ný persónuverndarreglugerð ESB gerir það verkum að bæjarfélög þurfa að ráða persónuverndarfulltrúa. Sjá nánar neðst í þessari frétt.
Eftirfarandi aðilar sóttu um starfið:
Berglind Helga Jóhannsdóttir
Erna Ösp Einarsdóttir
Erna Björk Kristinsdóttir
Fanney Margrét Hafþórsdóttir
Gísli Páll Oddsson
Hafdís Vala Freysdóttir
Harpa Sólbjört Másdóttir
Kristín Sigurgeirsdóttir
Linda Björk Stefánsdóttir
Sigrún Inga Guðnadóttir
Ein af þeim nýjungum, sem kynntar eru til sögunnar með persónuverndarreglugerð ESB 2016/679, (pvrg.) er skylda til að tilnefna persónuverndarfulltrúa hjá öllum stofnunum og sumum fyrirtækjum.
Samkvæmt reglugerðinni er tilteknum aðilum skylt að tilnefna persónuverndarfulltrúa, t.d. stjórnvöldum og öðrum stofnunum. Þá er fyrirtækjum jafnframt gert að tilnefna persónuverndarfulltrúa ef meginstarfsemi þeirra felur í sér vinnsluaðgerðir sem krefjast, sakir eðlis síns, umfangs og/eða tilgangs, umfangsmikils, reglubundins og kerfisbundins eftirlits með skráðum einstaklingum.
Rétt er að taka fram að persónuverndarfulltrúinn er ekki persónulega ábyrgur ef reglunum er ekki fylgt. Það er fyrst og fremst á ábyrgð ábyrgðaraðilans eða vinnsluaðilans sjálfs að tryggja og geta sýnt fram á að sú vinnsla persónuupplýsinga sem á sér stað sé í samræmi við reglurnar („ábyrgðarskyldan“).
Í persónuverndarreglugerðinni er litið á persónuverndarfulltrúann sem lykilstarfsmann og mælir hún fyrir um skilyrði fyrir ráðningu hans, stöðu og verkefni. Markmiðið er að gefa hlutverki hans vægi í því skyni að tryggja að ábyrgðaraðilar og vinnsluaðilar fari að reglunum og styrkja jafnframt persónuverndarfulltrúann í störfum sínum.
Auglýsing