Það eru margir sem hafa áhuga á því að vita hvenær gjaldtöku verður hætt í Hvalfjarðargöngin af hálfu Spalar.
Á heimasíðu fyrirtækisins er sagt að innheimtu veggjalda verði hætt haustið 2018.
Gylfi Þórðarson framkvæmdastjóri Spalar segir að nákvæm dagsetning liggi ekki fyrir – og engin sérstök ástæða er fyrir því.
Skagafrettir.is sendi fyrirspurn á skrifstofu Spalar og var henni svarað um hæl af framkvæmdastjóranum.
Spurningin frá skagafrettir.is var eftirfarandi: „Það eru margir sem hafa áhuga á því að vita hvenær gjaldtöku verður hætt í Hvalfjarðargöngin af hálfu Spalar. Í haust er mjög vítt hugtak, er hægt að fá nánari dagsetningu eða er hún ekki klár?
Svarið frá Gylfa er hér fyrir neðan:
„Ég sagði á aðalfundi í mars að það stefndi í það þá að þetta yrði einhvern tímann síðari hluta september og það stendur ennþá ef ekkert óvænt kemur upp á,“ segir Gylfi í svari sínu í dag.
Á heimasíðu Spalar er vakin athygli á því að allar inneignir verði endurgreiddar.
„Að gefnu tilefni skal það ítrekað enn og aftur að viðskiptavinir Spalar fá að sjálfsögðu greidda þá fjármuni sem þeir kunna að eiga inni á áskriftarreikningum sínum hjá félaginu þegar hætt verður að innheimta veggjöld haustið 2018.
Spölur mun líka endurgreiða afsláttarmiða sem viðskiptavinir kunna að eiga í fórum sínum þegar gjaldheimtu lýkur og endurgreiða skilagjald veglykla.
Fyrir hefur legið lögfest í meira en tvo áratugi að rekstrartíma Spalar í núverandi mynd lyki á árinu 2018 og að félagið myndi þá afhenda ríkinu Hvalfjarðargöngin skuldlaus.
Rekstri ganganna verður fram haldið í núverandi mynd þar til ríkið eignast mannvirkið í haust.
Allt sem áskrifendur og aðrir viðskiptavinir eiga inni verður endurgreitt, hvort sem eru fjármunir á áskriftarreikningum eða ónotaðir afsláttarmiðar. Breytir engu hvenær áskriftarferðir eru greiddar fyrir fram eða keyptir afsláttarmiðar á þeim tíma sem eftir lifir af rekstrartíma Spalar,“ segir í frétt á heimasíðu Spalar.
Auglýsing