Menningarlífið á Akranesi fjölbreytt og kraftmikið – og listafélagið Kalman á Akranesi fer þar framarlega í flokki. Tvennir jazztónleikar verða á Akranesi föstudaginn 7. september og eru tónleikastaðirnir ekki alveg hefðbundir.
Sigurður Flosason saxófónleikari og sænski píanóleikarinn Lars Jansson munu halda „heimatónleika“ að Grundartúni 8 en þar búa Elfa Margrét Ingvadóttir og Pálmi Haraldsson.
Þeir Sigurður og Lars hafa spilað talsvert saman og mynda einstaklega skemmtilegt dúó. Á tónleikunum verður lögð áhersla á tónsmíðar þeirra beggja en ekki er óhugsandi að vel valdir, sígildir og sígrænir ópusar fylgi með.
Nánd og heimilisleg stemning munu ramma inn eftirminnilegan fund þessara tveggja listamanna.
Tónleikar þeirra hefjast kl. 19.15 en húsið opnar kl. 18.45.
Seinni tónleikarnir fara fram kl. 21.15, í gula húsinu að Kirkjubraut 8 (Bowieveggurinn). Þar verða þeir Andrés Þór gítarleikari og Miro Herak víbrafónleikari frá Slóvakíu. Þeirra samstarf á sér líka nokkra sögu.
Á þessum tónleikum munu þeir leika ljúfan, melódískan nútímajazz og samanstendur efnisskráin af blöndu af lögum þeirra beggja og samtíma jazztónsmíðum. Víbrafónn og gítar eru líka áhugaverð blanda.
Gaman er að segja frá því að á báðum tónleikunum verður Bjór- og bruggmenningarfélag Akraness með smakk og smárétti.
Það er því tilvalið að gera kvöldið að góðu menningarkvöldi og auðvelt að sækja báða þessa tónleika.
Það er listafélagið Kalman á Akranesi sem heldur utan um þessa tónleika. Þessir listamenn koma einnig fram á Jazzhátíð Reykjavíkur sem nú stendur yfir.
Almennt miðaverð á tónleikana er kr. 2.500 en Kalmansvinir greiða kr. 2.000.
Það skal tekið fram að vissara er að panta miða á tónleikana því miðafjöldi er takmarkaður. Hægt er að panta miða í síma 865-8974 eða senda póst á [email protected]
Auglýsing