„Ég fæ alltaf hugmyndir, sumar eru góðar og aðrar ekki. Þannig er það bara. Ég er búinn að vera í sjö ár að koma Akranesvitanum á framfæri. Ég hlakka til að mæta í vinnuna á hverjum degi.
Mig dreymir um að Skagamenn fari að tala bæinn okkar enn meira upp – og hafi meiri trú á því að við getum stækkað og eflst sem áhugaverður kostur fyrir ferðamenn,“ segir Hilmar Sigvaldason „Vitavörður“ okkar Skagamanna í samtali við skagafrettir.is.
Hilmar hætti í vel launaðri vinnu hjá Norðuráli til að sinna því sem hann hefur mestan áhuga á. Hann sér ekki eftir þeirri ákvörðun og líður hvergi betur en að eiga samskipti við gestina sem heimsækja Breiðina á hverjum degi.
„Ég er eflaust ekki eins og aðrir – að taka á mig mikla launalækkun, til að sinna því sem mér finnst skemmtilegast,“ segir Hilmar í léttum tón. Mér líður vel hérna og ég hef svo mikla trú á á Akranesi sem ferðamannabæ. Hér er hægt að gera svo miklu meira til að koma fleiri ferðamönnum hingað – en til þess þarf samstillt átak allra bæjarbúa.“
Það er blik í augunum á Hilmari þegar hann byrjar að ræða allar þær hugmyndir sem hann hefur hvað ferðamálin varðar. Frumkvöðlastarf hans í Akranesvita er einstakt – og margir töldu hann hafa misst vitið að reyna að koma Akranesvitanum á kortið hjá ferðamönnum.
„Ég veit að það voru margir sem héldu að ég hefði misst vitið þegar ég byrjað að opna Akranesvitann fyrir sjö árum. Ég hafði trú á þessu og vildi láta reyna á þetta. Ég gerði þetta samhliða annarri vinnu í fyrstu og það bar árangur. Hingað komu 14.000 gestir árið 2017. Ég tel reyndar að við getum margfaldað þá tölu með fimm. Það gerir um 70.000 gesti. Hingað kemur gríðarlega margt fólk á kvöldin þegar við erum með lokað og við höfum ekki nákvæma tölu á heimsóknum hingað á Breiðina.“
Vitavörðurinn bendir á að framundan sé tími Norðurljósaheimsókna og þar eigi Akranes mikið inni
„Akranesviti er að mati margra einn áhugaverðasti staðurinn fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða Norðurljósin. Í vor kom 270 manna hópur til þess að taka myndir af Norðurljósunum. Þeir sem stóðu að þeirri heimsókn sögðu að allar aðstæður hérna á svæðinu væru hentugar fyrir slíkar heimsóknir. Hér er engin umferð, hættan er því lítil fyrir gestina, salernisaðstaðan er fín og nálægðin við Reykjavík er hentug. Hópurinn fékk að vísu ekki að sjá Norðurljósin á því kvöldi en þau voru samt sem áður ánægð með ferðina og aðstöðuna.“
Sem dæmi um hugmyndir að verkefnum sem mætti skoða og fara að vinna nefnir Hilmar miðnæturgolf, göngur á Akrafjall, Langasand, Guðlaugina, Skógræktina og söguna sem knattspyrnan á Akranesi hefur að geyma.
„Miðnætursólin er einstök hér á landi. Það er hægt að nýta það með frábærri upplifun á Garðavelli fyrir erlenda gesti sem spila golf. Ég hef nefnt þetta við forsvarsmenn Leynis og vona að þetta fari í farveg hjá þeim. Göngur á Akrafjallið er líka eitthvað sem mætti nýta betur. Útsýnið af toppi Akrafjalls í góðu veðrið er einstakt, eitthvað sem við gætum unnið með.
Geggjuð upplifun að fara undir Atlantshafið í rútu í gegnum Hvalfjarðargöngin
Hvalfjarðargöngin eru líka upplifun fyrir marga sem hingað koma. Ég hef rætt við fullt af fólki sem fannst geggjuð upplifun að fara undir Atlantshafið í rútu í gegnum Hvalfjarðargöngin. Við horfum öðruvísi á þetta mannvirki – göngin stytta bara leiðina til Reykjavíkur fyrir okkur flest. Upplifun erlendra ferðamanna er öðruvísi og við þurfum að nýta okkur sérstöðuna að til þess að komast á Akranes þarftu að keyra undir sjálft Atlantshafið.“
Hilmar heldur áfram að telja upp ýmsa kosti við Akranes sem hægt er að nýta betur til að fá fleiri ferðamenn.
„Akratorgið er frábær miðpunktur fyrir ýmsa viðburði. Sérstaklega á góðum sumardögum. Lítið svið við Akratorgið er frábær vettvangur fyrir ýmis tónlistaratriði. Það þarf ekki að vera mikið eða stórt til að byrja með. Við þurfum bara að byrja og blása lífi í bæjarlífið. Ef við gerum það ekki sjálf þá gerir það enginn. Við þurfum að þora að prófa og sjá hvað verður. Annars gerist ekkert.“
Hilmar nefnir frumkvöðlastarfið sem unnið hefur verið á Rifi á Snæfellsnesi sem gott dæmi.
„Kári Viðarsson á Rifi hefur gert frábæra hluti á því svæði. Frystiklefinn er t.d. að að verða stórt nafn þegar kemur að tónlistarviðburðum. Við eigum að nýta okkur reynslu annarra og yfirfæra hana á Akranes. Ég get einnig nefnt einfaldar framkvæmdir á Seyðisfirði og Ísafirði sem hafa vakið mikla athygli. Máluð gata á Seyðisfirði fyrir framan bláu kirkjuna er að verða einn vinsælasti ferðamannastaður Austurlands. Á Ísafirði er gangbraut sem er máluð í þrívídd – og það verkefni hefur komið Ísafirði á kortið. Hér á Akranesi gæti „David Bowie veggurinn“ orðið slíkt aðdráttarafl – en allt þarf þetta tíma til að þróast enn frekar.“
Knattspyrnubærinn Akranes er eitt af því sem Hilmar telur að ætti að draga enn betur fram hér á Akranesi sem áhugaverður kostur fyrir ferðamenn.
„Hingað komu hjón frá Hollandi sem vildu upplifa Akranes – en þau eru stuðningsmenn Feyenoord frá Hollandi. Liðið sem ÍA vann í Evrópukeppninni fyrir 25 árum. Þau fóru að skoða Akranesvöllinn og fannst aðstaðan sem við eigum hérna á Akranesi stórmerkileg. Fótboltinn á heimsvísu er það stór að nálægðin og smæðin hér á Akranesi er áhugaverður kostur fyrir þá sem hafa áhuga á fótbolta.
Ferðamenn á æfingu hjá ÍA og fá að heilsa upp á leikmenn? Það væri eitthvað öðruvísi. Í þessu samhengi er hægt að vinna ótrúlega margt jákvætt fyrir bæinn. Ég klikkaði reyndar á því að hringja ekki í Ólaf Þórðarson og fá hann á vörubílnum á svæðið til að ræða við hollenski hjónin. Þá hefðu þau hitt leikmanninn sem skoraði sigurmarkið gegn Feyenoord,“ bætir Hilmar við og brosir.
Langisandur er demantur
sem þarf að ýta betur að fólki
Að lokum fer Hilmar yfir alla þá kosti sem Langisandur hefur sem útivistarsvæði og hann óskar eftir samstöðu hjá bæjarbúum varðandi Guðlaugina.
„Við eigum að hætta að tala Guðlaugina niður. Þetta flotta mannvirki er komið til að vera – og við þurfum að nýta þau tækifæri sem þessi framkvæmd opnar.
Við eigum að hætta að tala Guðlaugina niður. Þetta flotta mannvirki er komið til að vera – og við þurfum að nýta þau tækifæri sem þessi framkvæmd opnar.
Langisandur er demantur sem þarf að ýta betur að fólki. Fagfólk í siglinum og ýmsum íþróttum sem tengjast sjónum elska aðstöðuna sem er á Langasandi. Hér eru gríðarleg tækifæri sem við gætum nýtt enn betur. Guðlaugin er verkefni sem er komið af stað. Það eru skiptar skoðanir um það. Mér finnst að Skagamenn ættu að sameinast um að tala Guðlaugina upp. Verkefnið er komið af stað og þetta mannvirki mun standa hérna við Langasandinn. Það er mín upplifun að margir séu að tala Guðlaugina niður en mér þætti betra ef við nýttum orkuna í að skoða hvaða möguleikar skapast fyrir Akranes sem ferðaþjónustubæ með Guðlauginni,“ segir Hilmar að lokum.