Helgi Laxdal ætlar sér stóra hluti – gekk meira á höndum en fótum sem barn

„Ég var með mikla þörf fyrir að hreyfa mig þegar ég var barn. Ég byrjaði að ganga á höndum þriggja ára gamall – og leikskólakennararnir sögðu að ég gengi meira á höndum en fótum.

Á Akranesi prófaði ég flestar íþróttir eins og gerist og gengur. Mér fannst einfaldlega skemmtilegra að fá að hoppa og skoppa út um allt í fimleikum,“ segir Skagamaðurinn Helgi Laxdal Aðalgeirsson við skagafrettir.is.

Helgi Laxdal er einn besti fimleikmaður landsins og keppti Skagamaðurnn með íslenska landsliðinu í hópfimleikum nýverið á EM í Portúgal. Þar náði hann á verðlaunapall ásamt liðsfélögum sínum í keppni blandaðra liða.

„Það er góð tilfinning að eiga bronsverðlaun frá EM. Það sem var skemmtilegast og eftirminnilegast var að kynnast nýju liði, nýum þjálfurum. Það er frábært tækifæri að fá tækifæri að keppa erlendis á svona stóru móti – og ekki síst þegar árangurinn er svona góður.“

EM í Portúgal er ekki fyrsta stórmótið hjá Skagamanninum. Hann á eftirminnileg augnablik frá EM 2016.

„Á EM 2016 áttum við aðeins eitt áhald eftir, það var dansinn. Staðan var þannig að fjórða sætið yrði niðurstaðan fyrir okkur. Það eina sem gat fært okkur upp í bronssætið var að ná hæstu einkunn í dansinum eða gólfinu. Við þurftum að fá 21.100 í einkunn sem var hæsta einkunn en við gerðum enn betur og fengum 21.700. Við sigruðum í þeirri grein og enduðum í þriðja sæti í samanlögðum árangri.“

Helgi segir að ýmislegt hafi gerst á ferlinum sem sé eftirminnilegt – og jafnvel skemmtilegt þegar lengra líður frá atvikinu. „Ég var að keppa á Íslandsmótinu og var að framkvæma einhverja æfingu eða stökk. Ég lenti bókstaflega á andlitinu – það er aldrei gott en kannski fyndið svona eftir á.“

Helgi á sér ýmis áhugamál fyrir utan fimleika og hann er hjátrúafullur.

„Ég keppi alltaf með sömu kálfahlífarnar – það er mín hjátrú. Ég á mér ýmis áhugamál, gaman að vera með vinum og fjölskyldu. Útivera er eitt af því sem ég kann vel við og að sjálfsögðu að ferðast eins og margir aðrir.“

„Fimleikar er frábær íþrótt fyrir bæði kyn. Í öðrum löndum er kynjahlutfallið mun jafnara og það þarf að ná þessum stimpli af hér á  landi. Það þarf hugarfarsbreytingu.

Það sem mér finnst skemmtilegast við fimleika er að kynnast nýju og nýju fólki. Fimleikafólk er ótrúlega skemmtilegt og alltaf er maður að kynnast einhverjum nýjum. Hvort sem það er iðkandi, þjálfari eða jafnvel einhver andstæðingur úr öðru félagi eða öðru landi. Það er auðvitað alltaf gaman að leika sér. Læra einhver klikkuð stökk og æfa nýja tækni eða nýjan dans,“ segir Helgi en hann stundar nám í Fjölbrautaskóla Garðabæjar.

Helgi hóf ferilinn hjá Fimleikafélagi Akraness en hann æfir og keppir fyrir Stjörnuna í Garðabæ. Samhliða námi starfar hann á skemmtistaðnum Petersen Svítan og á sumrin er hann þjónn á Gamla Kaupfélaginu á Akranesi.

„Ég vakna alla daga kl. 6.30 til að fara í skólann en ég bý hjá foreldrum mínum á Akranesi. Ég er í skólanum til 16. Þá fer ég að læra eða hitta vini mína. Frá kl. 19-22 eru æfingar og eftir æfingu keyri ég heim á Akranes. Þá er lítið annað að gera en að fara sofa, hvíla sig fyrir næsta dag,  og rútínan hefst að nýju,“ segir Helgi en hann æfir fimm sinnum í viku með Stjörnunni og er hver æfing þrjár klukkustundir.

Framtíðardraumur Helga er að landa gullinu á Evrópumótinu og verða fimleikamaður ársins. „Ég læt mig dreyma og það eru stórir draumar. Ég á eftir að framkvæma draumastökkið í móti en það heitir „full full half eða pike kraft full rudy,“ segir Helgi að lokum og sá sem þetta skrifar fékk svima við það eitt að skrifa draumastökk Helga Laxdal.

Helgi Laxdal Aðalgeirsson.

Staðreyndir:

Nafn: Helgi Laxdal Aðalgeirsson.
Aldur: 19 ára.
Skóli: Fjölbrautaskólinn í Garðabær .
Besti maturinn: Naut og benni. æ´ð“
Besti drykkurinn: Vatn og Powerade.
Besta lagið/tónlistin. How to save a life með The Fray
Á hvað ertu að horfa þessa dagana? ( Suits )

Ættartréð:
Foreldrar: Aðalgeir Jónasson (43), Lilja Lind Sturlaugsdóttir (41). Systkini: Finnbogi Laxdal (16)
Jónas Laxdal (9).

Auglýsing