Það var góð stemning þegar starfsfólk og eigendur Ritari fögnuðu 10 ára starfsafmæli fyrirtækisins nýverið í höfuðstöðvum Ritari við Esjubraut 49.
Hjá fyrirtækinu starfa í dag 11 manns og hefur Ritari stækkað jafnt og þétt á undanförnum tíu árum.
Hjónin Ingibjörg Valdimarsdóttir og Eggert Herbertsson eru eigendur Ritari. Ingibjörg er hér lengst til hægri ásamt starfsfólki fyrirtækisins.
Þjónusta fyrirtækisins er fjölbreytt og vöruúrvalið hefur aukist á undanförnum árum.
Starfsmenn Ritari leysa fjölmörg verkefni á hverjum degi sem snúa að símsvörun, úthringiþjónustu, netspjalli og umsjón með samfélagsmiðlum. Þar að auki er almenn ritaraþjónusta í boði ásamt bókhaldsþjónustu og almennri ráðgjöf um rekstur fyrirtækja.
Ingibjörg Valdimarsdóttir, stjórnarformaður Ritari ehf. og eigandi fyrirtækisins sagði í stuttu máli frá upphafsárunum í stuttu máli. Fyrirtækið var stofnað árið 2008 af hjónunum Eyjólfi Rúnari Stefánssyni og Arndísi Höllu Jóhannesdóttur ásamt Reyni Georgssyni og Dagnýju Halldórsdóttur.
Arndís, var jafnframt fyrsti starfsmaður Ritari, en hún lést í febrúar á þessu ári og var hennar minnst í ræðu Ingibjargar.
Ingibjörg sagði frá því að saga Ritari næði allt aftur til ársins 2007 en þá keyptu stofnendur fyrirtækisins húsnæði í stjórnsýsluhúsinu á Akranesi. Saga Ritari í stuttu máli er hér fyrir neðan myndirnar.
Saga Ritari í stuttu máli er hér fyrir neðan:
Fyrstu mánuðirnir fóru í að byggja upp framboð á þjónustu sem gæfi grundvöll til að ráða inn starfsmann í fullt starf.
Fyrstu verkefnin sem Ritari tók að sér voru úthringiverkefni fyrir símasölu. Til að sinna því verkefni var sett upp símstöð og upp frá því fór fyrirtækið að sinna símsvörunarþjónustu. Þá bættust við þjónustuþættir á borð við bókanir og tímapantanir í tengslum við símsvörunina.
Þarna var komin grundvöllur til að ráða inn fyrsta starfsmann fyrirtækisins. Áfram var haldið að sækja verkefni í símsvörun og heimasíðugerð. Fljótlega var komin þörf til að finna önnur verkefni til að sinna samhliða símsvöruninni og var þá sótt í verkefni á borð við umsjón með rekstri húsfélaga.
Síðla árs 2008 bættust svo við verkefni í bókhaldi. Fyrst um sinn var þeim verkefnum sinnt af eigendum en ljóst var að fljótlega þurfti að ráða inn starfsmann til að sinna bókhaldsverkefnum. Með því fór verkefnum að fjölga og þriðji starfsmaðurinn var ráðinn í lok árs til að sinna verkefnum sem fólust meðal annars í að setja upp þjónustuborð fyrir fyrirtæki. Í upphafi árs 2009 var svo fjórði starfsmaðurinn ráðinn inn.
Í lok árs 2009 urðu tímamót í sögu Ritara. Þá var búið að tryggja rekstrargrundvöll fyrirtækisins með 4 starfsmenn á launaskrá. Eigendur gátu þó ekki gefið tíma sinn lengur til að reka fyrirtækið og var því leitað til utanaðkomandi aðila til að vinna með fyrirtækinu að framtíðarlausnum. Sturlaugur Sturlaugsson kom þá að borðinu sem ráðgjafi og bættist fljótlega í eigendahóp fyrirtækisins og settist í stjórn fyrirtækisins ásamt Eyjólfi, Arndísi og Reyni.
Í ársbyrjun 2011 bættist svo Ingibjörg Valdimarsdóttir við eigendahóp Ritara en hún tók þá við framkvæmdastjórastöðu fyrirtækisins ásamt því að setjast í stjórn þess.
Það var svo í ársbyrjun 2017 að EIH ehf., fyrirtæki í eigu Ingibjargar Valdimarsdóttur og Eggerts Herbertssonar keypti allt hlutafé í fyrirtækinu.
Í dag starfa um og yfir 12 manns hjá fyrirtækinu á Akranesi – en starfssemi Ritari er við Esjuvelli 49.
Auglýsing