Pistill: „Að brjóta niður múra“

Auglýsing



Múrbrjóturinn er viðurkenning sem Landsamtökin Þroskahjálp veita árlega þeim sem að mati samtakanna brjóta niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og stuðla þannig að fullgildri samfélagsþátttöku, mannréttindum og lífsgæðum þess til jafns við aðra. Á alþjóðadegi fatlaðs fólks þann 3.desember sl. féll Múrbrjóturinn m.a. í skaut Frístundamiðstöðvarinnar Þorpsins og Ruthar Jörgensdóttur Rauterberg, sem starfaði í Þorpinu í 11 ár en er núna aðjúnkt og doktorsnemi við HÍ.

Vettvangur starfsemi Þorpsins er frítími og forvarnir þar sem megin áherslan er lögð á barna og unglingastarf. Við settum okkur það markmið að vera ávallt opin fyrir nýjungum og breytingum og miða starfsemina út frá þörfum samfélagsins hverju sinni. En mikilvægast er að við viljum mæta þörfum hvers og eins eftir bestu getu. Við viljum gera ráð fyrir margbreytileika mannlífsins og að allir geti fengið hvatningu og stuðning við hæfi í sínu tómstundastarfi. Það eru allir velkomnir í starfið okkar, alltaf.

Starf án aðgreiningar

Haustið 2007 byrjaði félagsmiðstöðin Arnardalur með tómstundastarf fyrir fötluð börn í 5.-10. bekk eftir að skóla lauk á daginn.Við kölluðum það Frístundaklúbb Arnardals. Gaman-saman starf Þorpsins byrjaði svo sem tilraunaverkefni haustið 2009 en það þróaðist út frá tómstundastarfi Frístundaklúbbsins sem var í fyrstu eingöngu ætlað fötluðum börnum en breyttist svo í tómstundastarf fyrir öll börn. Á þeim tíma vorum við búin að átta okkur á því að börnin í Frístundaklúbbnum voru miklar félagsverur sem áttu í góðu sambandi við jafnaldra sína í skólanum og okkur fannst mótsögn í því að verið var að þróa skólastarf án aðgreiningar en í frítíma vorum við að stuðla að aukinni aðgreiningu.

Haustið 2013 framkvæmdi Ruth með stuðningi Þorpsins þátttökurannsókn á Gaman – saman starfinu í Þorpinu þar sem 40 börn á aldrinum 10-12 ára og 6 frístundaleiðbeinendur tóku þátt. Það var megin niðurstaða rannsóknarinnar að þróun starfs fyrir margbreytilega barna,- og unglingahópa byggir á samvinnu sem felst í því að allir taki virkan þátt. Við sáum líka að þátttaka í tómstundastarfi eins og Gaman-saman getur undirbúið okkur undir það að takast á við áskoranir í samfélagi fyrir alla. Börn sem við héldum að þyrftu mestu aðstoðina frá okkur fóru að blómstra og voru jafnvel drifkrafturinn í hópnum. Þau komu sjálfum sér á óvart, unnu mikla sigra og var það oft hvatningu jafnaldranna að þakka.

Við viljum skapa menningu sem viðurkennir margbreytileikann og umhverfi þar sem þátttaka allra þykir sjálfsögð. Við viljum líka sína fram á að starf á vettvangi frítímans er kjörið til þes að stuðla að aukinni þátttöku og auknum samskiptum milli fólks. Við upplifðum nefnilega að fjölbreytileikinn í hópnum gat dregið fram það besta í öllum.

Það að vera múrbrjótur er ekki átaksverkefni. Það er lífstíll og það er hugmyndafræði. Með þessa hugmyndafræði að leiðarljósi geta allir tekið þátt í öllu starfi Þorpsins.

Við erum ákaflega stolt og þakklát fyrir þessa viðurkenningu og hún hvetur okkur til að halda áfram á þessari vegferð og fá aðra með okkur í lið. Það er nefnilega erfitt fyrir einn að brjóta niður múr en verður létt verk þegar allir hjálpast að.

Heiðrún Janusardóttir verkefnisstjóri æskulýðs og forvarnarmála Akraneskaupstað

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg Þroskaþjálfi og aðjúkt við HÍ

 

 

http://localhost:8888/skagafrettir/2018/12/04/ruth-og-thorpid-fengu-murbrjotinn-i-tomstundastarf-fyrir-margbreytilega-hopa-skilar-arangri/

 

 

 

Auglýsing



Auglýsing