Auglýsing
Skagamaðurinn Ágúst Guðmundsson fer framarlega í flokki slökkviliðsmanna sem standa vaktina í söfnun fyrir Frú Ragnheiði. Ágúst er einn af sjö manna hópi sem hefur róið stanslaust frá því á föstudaginn en róðravélarnar eru staðsettar við verslunina Under Armour í Kringlunni í Reykjavík.
Ágúst er fæddur árið 1972 og foreldrar hans eru Helga Ragnheiður Höskuldsdóttir og Guðmundur Sigurðsson.
Hver slökkviliðsmaður rær í eina klukkustund og skiptast þeir á að róa allan sólarhringinn. Söfnunin hefur gengið frábærlega að sögn Ágústs.
Upphaflegt markmið var að safna hálfri milljón til að kaupa ákveðið tæki fyrir Frú Ragnheiði, sem er verkefni Rauða krossins í Reykjavík og hefur það markmið að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu eins og heimilislausra einstaklinga og þeirra sem nota vímuefni í æð.
Tækið sem um ræðir kostar um fimm hundruð þúsund krónur og er eins konar vasaljós sem auðveldar að lýsa upp illa farnar æðar. Söfnunin fór það vel af stað að markmiðið náðist um helgina og þá var stefnan sett hærra og nú er markmiðið að safna einni milljón króna.
Í morgun höfðu safnast rúmlega 670.000 krónur en þá er ótalið það sem safnast hefur í stærðarinnar söfnunarbauk sem er fyrir utan Under Armour verslunina.
Róðrinum lýkur klukkan 17 á föstudag.
Í samstarfi við Frú Laufey-félag um skaðaminnkun ætla sjö slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn ( konur og menn) að róa á Concept2 róðravél, stanslaust í eina viku og safna þannig fjármunum fyrir Frú Ragnheiði-skaðaminnkun sem verður m.a. notað til tækjakaupa.
Hægt er að leggja söfnunni lið með eftirfarandi hætti:
Smella á gefa.raudikrossinn.is/8287
Senda SMS-ið TAKK í símanúmerið 1900 til að gefa 1900 kr
Hægt verður að mæta í Under Armour-búðina í Kringlunni og „taka róður“ gegn vægu gjaldi – 1.000 kr. sem renna eðlilega beint í þetta mikilvæga málefni.
Frú Ragnheiður- skaðaminnkun er verkefni Rauða krossins i Reykjavík og hefur það markmið að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu eins og heimilislausra einstaklinga og þeirra sem nota vímuefni í æð. Frú Ragnheiður er sérinnréttaður bíll sem er ekið um götur höfuðborgarsvæðisins, sex kvöld í viku. Þangað geta einstaklingar leitað og fengið heilbrigðisaðstoð sem og nálaskiptiþjónustu. Markmiðið með nálaskiptiþjónustu er að draga úr líkum á sýkingum og smiti svo sem lifrarbólgu C og HIV meðal þeirra sem sprauta vímuefnum í æð.
Auglýsing
Auglýsing