Auglýsing
Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að starfa í skólum alla mína starfstíð sem á þessu ári telur 43 ár.
Einhver myndi segja að nú væri komið nóg en ég er svo lánsöm að njóta þess ennþá að vinna í skóla og fá að leggja mitt af mörkum til málefna og velferðar barna.
Í dag er ég leikskólastjóri í frábærum leikskóla, Garðaseli, þar sem hvern dag vinna saman yndisleg börn og starfsfólk og að baki okkur stór hópur foreldra, sem er okkar besti samstarfsaðili. Rödd okkar skiptir máli og við höfum metnað til að halda vel utan um börnin, þau eru það dýrmætasta sem við eigum og þessi tími kemur ekki tilbaka. Þess vegna skal nýta hann vel með hagsmuni barna að leiðarljósi.
Í leikskóla er gaman
Hér áður fóru börn almennt ekki í leikskóla en nutu þess í stað að hafa mömmu heima á meðan pabbi fór í vinnuna og vann fyrir heimilinu. Sumir af eldri kynslóðinni horfa enn dreymnir til þessa tíma og skilja illa eða lítið þörfina á aukinni þörf leikskólaþjónustu við börn og foreldra. Sem betur hefur þetta breyst og í dag gegna leikskólar lykilhlutverki í lífi foreldra með yngri börn. Konur fá tækifæri til að mennta sig og vera þátttakendur á vinnumarkaði til jafns við karla og ekki er lengur gert ráð fyrir að þær séu heima að passa börn og bú. Börnin eru í öruggu og uppbyggilegu námsumhverfi, þar sem þau fá jöfn tækifæri til að þroskast og dafna, takast á við samskipti við önnur börn í leik og starfi og mynda vináttutengsl, sem þau taka með sér út næstu skref lífsins.
Við erum best !
Leikskólastigið er fyrsta skólastig barnsins samkvæmt lögum og Aðalnámskrá leikskóla. Leikskólastarfið hefur þróast ört á síðustu 20 árum og í dag er óhætt að segja að leikskólar á Akranesi séu ein af skrautfjöðrum bæjarins og horft til leikskólanna víða með viðurkenningu og eftirtekt fyrir þeirra góða starf. Í ánægju- og viðhorfskönnun með þjónustu sveitarfélagsins undanfarinna ára eru leikskólarnir á Akranesi yfirleitt í einu af tveimur efstu sætunum þegar kemur að samanburði við stærstu sveitarfélögin. Þar er gaman að vera og hefur sú staða kostað blóð, svita og tár marga. En eins og oft er erfitt að verja toppstöðu og til þess þarf kjark og metnað til að taka næstu skref. Halda þarf áfram að styðja og bæta það góða starf sem fram fer í leikskólunum því stöðnun er ekki í boði eða sitja lengi og dást að góðri niðurstöðu í samanburði sveitarfélaga. Sá tími er runninn upp á Akranesi !
Umhverfi barna og starfsfólks
Enn eimir af þeim viðhorfum að eitthvað sé nóg þegar kemur að leikskólum og má minna á að þá er verið að ræða námsaðstæður yngstu barnanna, fyrstu árin þeirra fyrir utan heimilið en líka er um að ræða vinnuumhverfi starfsmanna.
Í leikskólum er orðið fermetri mest notaða orðið þegar rætt er um viðmið rýmis og fjölda barna á svæðum. Ég hef starfað í leik- og grunnskóla og get fullyrt að þessi fermetraumræða er ekki til staðar þegar kemur að rými grunnskólanna – jafnvel þó þröngt sé þar líka. Einhvern veginn hefur þessi fermetra-umræða orðið til þess að yfirfylla leikskólana, sem jafnvel voru byggðir fyrir 20 -30 árum og tóku þá tillit til þess starfs sem þá var. Það er himinn og haf á milli þess sem var og er í dag og þar ber helst að nefna dvalartíma barna og aukin þjónusta,
sérkennsla, ríkari kröfur um vinnuumhverfi ( hljóðvist, loftræsting, hiti ), aðstæður mötuneyta, búnaður, samráð við foreldra, undirbúningstímar kennara og starfsfólks. Margt er gott en starfsaðstæður barna og starfsfólks eru ekki lengur fullnægjandi og við því þarf að bregðast.
Mikil umræða er nú í leikskólasamfélaginu um rými í leikskólum og í dag vitum við betur en áður – of lítið leikrými barna hefur áhrif á tengslamyndun, málþroska, kvíða, einbeitingu og hefur líka áhrif á almenna vellíðan barna og starfsfólks með langa vinnudaga, sem jafnvel sífellt lengjast. Hvað er þá til ráða ?
Bættar starfsaðstæður barna og starfsfólks
Í dag er starfandi verkefnahópur á Akranesi, sem hefur það verkefni að rýna í þörf leikskólaplássa og hvaða skref eru nauðsynleg og á hann að skila skýrslu í maí 2019.
Á Akranesi koma sömu þættir upp og í öðrum sveitarfélögum,þegar rætt er um bætt starfsumhverfi barna og starfsfólks leikskólanna ;
- endurskoða fermetraviðmið og taka út / draga úr vægi sameiginlegra svæða sem deildir hafa ekki aðgang að alla daga ( hreyfisalir, listasmiðjur)
- bæta hljóðvist sem víða er lítil og verulega ábótavant
- bæta vinnurými kennar ( undirbúningsrými)
- fundarrými vegna viðtala við foreldra / starfsmenn og annað samráð innan leikskóla
- vinnuaðstaða kennara / starfsfólks í undirbúningi
- bæta við undirbúningstíma kennara og deildarstjóra og stytta þannig viðveru þeirra á deild sem í dag eru 35 -36 klst á viku miðað við fullt starf
- leiðbeinendur fái 1-2 klst á viku til undirbúnings en þetta er sá hópur sem gengur í flest störf leikskólans og ríkar kröfur gerðar til þessa hóps án þess að hann hafa rými til að undirbúa sig
Framtíðin er á morgun – metnaður í framtíðarsýn
Á Akranesi hefur alltaf verið mikill metnaður til að standa vel í samanburði við aðra. Aldrei hefur annað verið í stöðunni en knattspyrnan sé í úrvalsdeild og til þess þarf ákveðnar aðstæður. Mikill metnaður er við byggingu fimleikahúss, við viljum líka vera með þeim bestu þar. Guðlaugin og félagsmiðstöðin á Garðavelli, frábær verkefni fyrir þá sem njóta þeirra. Áætlun um uppbyggingu á Jaðarsbakkasvæðinu er stórhuga og sýnir mikinn metnað, skýr framtíðarsýn sem margir hafa komið að og glæsileg uppbygging á leiðinni.
Eftir þessa upptalningu velti ég fyrir mér sem leikskólastjóri, hvað með leikskólana ? Hver er framtíðarsýnin varðandi uppbyggingu leikskólamála á Akranesi ? Hvernig á að halda áfram að næra það frábæra og gjöfula starf sem þar er ? Hvernig sjáum við námsumhverfi yngstu barnanna þróast þannig að þau njóti ávallt þess besta ?
Hvernig ættum við að horfa til framtíðar með menntun leikskólakennara í huga ? Nú má ekki hugsa eitthvað sem er nóg heldur eitthvað sem er frábært !
Ingunn Ríkharðsdóttir leikskólastjóri í Garðaseli
Auglýsing
Auglýsing