Bæjarstjórn og stjórn Höfða mótmæla ákvörðun heilbrigðisráðherra



Í september á þessu ári stefnir allt í það að fjögur íbúðarými á hjúkrunar – og dvalarheiminu Höfða verði ekki nýtt sem biðhjúkrunarrými í tengslum við fráflæðisvanda Landspítala.

Bæjarstjórn Akraness fjallaði um þetta mál á síðasta bæjarstjórnarfundi þar sem að lýst var yfir stuðningi við fyrri ályktanir stjórnar Höfða.

Í stuttu máli snýst þetta um að hjúkrunarrými sem er að verðmæti 146 millj. kr. muni standa ónotuð en heilbrigðisráðuneytið hefur reiknað það út að það kosti 36,5 mkr. að byggja nýtt hjúkrunarrými með búnaði.

Þess má geta að í dag eru 28 einstaklingar á biðlista eftir hjúkrunar- og dvalarrýmum á Höfða og á biðlista eftir hvíldarinnlögn í hjúkrunarrými eru 20 einstaklingar.

Stjórn Höfða og bæjarstjórn Akraness skora nú sameiginlega á Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að endurskoða afstöðu sína og er óskað eftir fundi með ráðherra sem allra fyrst.

Bæjarstjórn Akraness tekur undir svohljóðandi ályktun stjórnar Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimilis dags. 25. febrúar síðastliðinn:

Stjórn Höfða lýsir yfir miklum vonbrigðum með svör heilbrigðisráðuneytisins á erindi Höfða frá 28. desember 2016 um fjölgun varanlegra hjúkrunarrýma og telur þau í miklu ósamræmi við þá hrópandi þörf á fjölgun hjúkrunarrýma í landinu öllu.

Fyrir liggur að þegar heimild Höfða til reksturs svokallaðra biðhjúkrunarrýma í tengslum við fráflæðisvanda Landspítala rennur út í lok september mánaðar 2019 munu standa auð og ónotuð fjögur íbúðarými á Höfða. Vert er að geta þess að skv. útreikningi heilbrigðisráðuneytis kostar 36,5 mkr. að byggja nýtt hjúkrunarrými með búnaði. Því munu standa ónotuð íbúðarými á Höfða sem kostar 146 mkr. að byggja.

Varðandi rök ráðneytisins um að heilbrigðisumdæmi Vesturlands sé eitt best setta heilbrigðisumdæmi landsins m.t.t. fjölda hjúkrunarrýma vill stjórn Höfða taka eftirfarandi fram:

– Í sveitarfélögunum Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit og Akraneskaupstað sem eru í suðurhluta umdæmisins og liggur að heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins eru um 65% af íbúafjölda umdæmisins en einungis 50% af varanlegum hjúkrunarrýmum umdæmisins og því mikil þörf á nýjum hjúkrunarrýmum.

– Í dag eru 28 einstaklingar á biðlista eftir hjúkrunar- og dvalarrýmum á Höfða og á biðlista eftir hvíldarinnlögn í hjúkrunarrými eru 20 einstaklingar.

 

– Reiknuð vistunarþörf í hjúkrunarrými fyrir Akranes og Hvalfjarðarsveit er langt umfram þau 61 hjúkrunarrými sem eru á Höfða í dag.

– Með tilkomu Færni- og heilsumatsnefnda er vistun í hjúkrunarrými ekki bundin við íbúa hvers umdæmis fyrir sig.

– Í dag eru um 8,5% af íbúum Höfða með færnismat úr öðrum heilbrigðisumdæmum og um 11% af einstaklingum á biðlista eftir dvöl.

Stjórn Höfða skorar á Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að endurskoða afstöðu sína til erindis Höfða um fjölgun varanlegra hjúkrunarrýma og felur formanni stjórnar og framkvæmdastjóra að óska eftir fundi með heilbrigðisráðherra sem allra fyrst um málið.

Ályktunin er send heilbrigðisráðherra, þingmönnum Norðvesturkjördæmis og eignaraðilum.

Auglýsing



Auglýsing