Hlynur Ben með Vita-tónlist og ákall til þjóðarinnar


Tónlistarmaðurinn Hlynur Ben, sem búsettur er á Akranesi er að sjálfsögðu Skagamaður, hefur sett af stað hópfjármögnun fyrir útgáfu á nýrri sólóplötu.

Hún mun kallast II ÚLFAR og verður þetta sú þriðja sem Hlynur sendir frá sér í eigin nafni.

Hlynur hefur marga fjöruna sopið í tónlistinni og meðal annars spilað með hljómsveitum eins og Gleðisveit Ingólfs, Rufuz, Mono og Búálfunum.

En þekktastur er hann þó sem skemmtikraftur og trúbador.

Til að mynda bar hann sigur af hólmi í fyrstu trúbadorakeppni FM957 árið 2009.

Síðasta plata Hlyns, Leiðin heim, kom út árið 2014 og gerði góða lukku.

Ekki síst lögin Hrópum, Vaknaðu, Það er allt í lagi og Kaldur bæði og sár sem hljómuðu mikið á öldum ljósvakans.

„Tónlistarlandslagið hefur breyst mikið, ekki síst það sem snýr að útgáfu,“ segir Hlynur og það var stærsta ástæða þess að hann fór þessa leið til að fjármagna nýju plötuna.

„Þetta er mjög skemmtilegt viðskiptamódel. Ég set upp visst takmark sem ég þarf að ná fjárhagslega svo mögulegt sé að standa straum af upptökum og útgáfunni sjálfri. Ef takmarkið næst ekki þá fær fólk endurgreitt um leið og söfnun líkur. En ef það næst þá fær það plötuna senda um leið og hún kemur út.“

Á þar til gerðri heimasíðu er hægt að velja mismunandi pakka sem innihalda allt frá geisladiskum yfir í tónleikamiða og aukaefni. Meira að segja er aukageisladiskur sem Hlynur tók upp í Akranesvita.

„Það er ótrúlegur hljómburður í vitanum og Hilmar vitavörður var svo vænn að leyfa mér að eyða heilli kvöldstund þar algjörlega óáreittur. Fyrst ætlaði ég bara að taka upp söngtöku fyrir eitt lagið á nýju plötunni en áður en yfir lauk var ég búinn að taka upp heila plötu.“

Vita-platan inniheldur nokkur eldri lög í nýjum útsetningum, nokkur sem verða á II ÚLFAR og nokkur sem verða eingöngu á þessari aukaplötu.

Hlynur segir að II ÚLFAR verði örlítið afturhvarf til unglingsáranna, þegar rokkið átti hug hans allann.

„Já þetta er eiginlega platan sem mig dreymdi um að búa til þegar ég var 17 ára gamall. Nú 20 árum síðar hef ég loksins öðlast næga reynslu til að klára hana og langar því að gefa sjálfum mér plötuna í 37 ára afmælisgjöf.“

En á tímum sem flestir streyma tónlist og listamennirnir sjálfir sjá lítið af hagnaðinum sem rennur til streymisveitna þá verða hópfjármagnanir sífellt algengari. Það er því auðvelt að týnast í flórunni og menn brydda upp á ýmsu til að vekja á sér athygli svo takmarkið náist. 

Hlynur hefur brugið á það ráð að senda út yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni, þar sem hann ávarpar þjóðina og hvetur til samstöðu. Sjón er sögu ríkari.

Allar upplýsingar um söfnunina má finna á www.hlynurben.net/2ulfar og það er hægt að fylgjast með vinnslu plötunnar á www.facebook.com/2ulfar