Pistill: Hvað svo kæru foreldrar?


Aðsend grein frá Heiðrúnu Janusardóttur.

Hvað virkar í forvörnum og hlutverk foreldra:

Mánudaginn 20.maí sl var haldinn fundur í Þorpinu, miðstöð frísitunda og forvarna á Akranesi, þar sem Margrét Lilja Guðmundsdóttir frá Rannsóknum og greiningu fór yfir niðurstöður úr  könnuninni Ungt fólk 2019- um vímuefnaneyslu ungs fólks.

Rétt er að halda því til haga að flest eru börnin okkar í góðum málum, stunda heilbrigðan lífstíl  og eru þátttakendur í skipulögðu æskulýðs- og íþróttastarfi. En því miður eru blikur á lofti.

Vísbendingar eru um að neysla sé að aukast. Það á við hvort sem við skoðum neyslu á áfengi, reyk-,munn og neftóbaki sem og kannabis.  

Það er hætt við því að þegar vel gengur að við tökum stöðunni sem sjálfsagðri. Þess vegna er mikilvægt að hafa þessar rannsóknir sem vekja okkur upp og minna okkur á að það má aldrei slaka á.

Áhrifaríkar forvarnir byggja á niðurstöðum rannsókna og sýna rétta mynd af stöðu ákveðinnar hegðunar.

Forvarnir og forvarnafræðsla.

Þegar neysla hjá ungu fólki fer upp á við eru margir fljótir að hlaupa til og trúa að skyndilausnir séu málið. ,,Hvað varð um alla forvarnarfyrilestrana eins og voru þegar eldri sonur minn var í skóla“ segja foreldrar gjarnan.

Við sem störfum að forvörnum reynum að gera það með faglegum hætti.

Forvarnir í sinni víðustu mynd er það sem við viljum sjá.

Embætti landlæknis hefur gefið út staðreyndarblað um það sem virkar í forvörnum. Þar kemur m.a fram að ,,heilsueflingar- og forvarnarstarf skal ávallt byggt á gagnreyndum aðferðum, sem búið er að sýna fram á með vísindalegum rannsóknum að bera árangur“.

Umfram allt er forsenda árangursríkra forvarna sýnileg stefna hvort sem er bæjarfélags eða  skóla, uppbyggilegt umhverfi og fagmenntað starfsfólk.

Þegar talað er um gagnvirkar forvarnir er megináherslan lögð á umræður þar sem börn og ungmenni eru virkir þátttakendur. Það geta verið opnar umræður um ákvarðanatöku og þjálfun í samskiptahæfni sem styrkir félagslega hæfni barna og ungmenna, sjálfsmynd þeirra og getu til að forðast áhættuhegðun, t.d. að afþakka tóbak og vímuefni þegar þau eru í boði.

Árangursríkar forvarnir :

  • Byggja á fræðilegum grunni
  • Leggja áherslu á fjölbreyttar, sveigjanlegar og gagnvirkar aðferðir sem auka færni barna og ungmenna og mæta þörfum þeirra
  • Byggja á fagmennsku og þjálfum þeirra sem sinna kennslunni
  • Byggja upp seiglu barna og ungmenna og tengsl þeirra við skólasamfélagið
  • Eru aldursmiðaðar
  • Leggja áherslu á félags og tilfinningafærni

Varast ber að valda skaða með hræðsluáróðri eða einhliða fræðslu sem hefur lítil sem engin áhrif á fjöldann en hugsanlega neikvæð áhrif á hegðun ákveðinna aðila.

Þó hræðsluáróður sé stundum eftirminnilegur og börn og ungmenni áhugasöm um slíka fræðslu sýna rannsóknir að hún hefur ekki tilætluð áhrif.

Slík fræðsla getur haft neikvæð áhrif á hegðun og hugsanlega ýtt undir áhættuhegðun hjá ákveðnum aðilum. Í þessu tilliti þarf að hafa í huga að valda ekki skaða þó ásetningurinn sé góður.

Fræðsluerindi sem einungis leggja áherslu á aukna þekkingu geta verið nauðsynleg en eru sjaldan nægjanleg til að hafa áhrif á hegðun.

Hlutverk foreldra

Foreldrar eru ein mikilvægasta fyrirmynd barna sinna. Þeir eru líka bestu forvarnarfulltrúarnir. Mikilvægt er að foreldrar tali við börn sín og ungmenni um tóbak, áfengi og önnur vímuefni og taki skýra afstöðu gegn því að þau prófi eða noti slík efni.

Foreldrar geta stuðst við eftirfarandi ráð til að sporna gegn því að börn og ungmenni noti tóbak, áfengi eða önnur vímuefni:

  • Byggja upp traust og náið samband.
  • Setja mörk og halda fast við þau.
  • Fylgjast með hvað þau eru að gera og hvar þau eru.
  • Kaupa hvorki áfengi né tóbak fyrir börn undir lögaldri.
  • Leyfa ekki eftirlitslaus partí.
  • Tala opinskátt og heiðarlega um áhættuna af notkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna

Íslenska módelið og þróun vímuefnaneyslu á Íslandi

Árangur Íslendinga í forvörnum hefur vakið athygli víða um heim og hafa erlendir fjölmiðlar fjallað um þennan árangur, þ.e hvernig íslendingum hefur tekist að draga úr áfengis og vímuefnaneyslu ungmenna hér á landi.

Á tíunda áratug síðustu aldar var áfengisneysla ungmenna vaxandi vandamál. Ljóst var að þær aðferðir, sem einkum fólust í því að fræða börn og ungmenni um skaðsemi vímuefna virkuðu ekki, í það minnsta ekki einar og sér. Meira þurfti til.

Þróun vímuefnaneyslu unglinga í 10. bekk á Íslandi árin 1998 til 2019

Það var þá sem mismunandi aðilar tóku höndum saman. Rannsakendur, stjórnmálamenn, fólk sem starfaði með börnum og ungmennum og foreldrar lögðust á eitt og unnu saman í því að leita lausna og finna hvað virkaði í forvörnum. Þá varð til Íslenska módelið s.k. Það snýst um samspil rannsókna og stefnumótunar á sviði áfengis og vímuefnamála þegar kemur að ungu fólki og forvörnum.  Í því felst einnig  að litið er á tómstundastarf sem lykilþátt í öllu forvarnastarfi. Menntaðir þjálfarar frá því íþróttaþátttaka barna hefst, mikið framboð skipulagðs íþrótta- og tómstundastarfs fá unga aldri og stuðningur hins opinbera, til dæmis í formi frístundastyrks sveitarfélaga, skipti sköpum.

Áhættuþættir /Verndandi þættir í lífi barnanna okkar.

Við tölum oft um áhættu og verndandi þætti í lífi barnanna okkar. Það er mikilvægt að við sem eigum börn og ungmenni eða störfum með þeim gerum okkur grein fyrir því hvaða þættir það eru sem hafa verndandi v.s áhættu áhrif á líf þeirra.

Áhætturþættir geta verið:

  • Jafningjahópurinn (þ.e að eiga vini sem nota t.d tóbak, áfengi og önnur vímuefni)
  • Óskipulagðar athafnir, hópamyndanir sem ekki flokkast undir skipulagt starf.
  • ,,Hangs“
  • Foreldralaus partý

Verndandi þættir :

  • Skipulagt íþrótta- og tómstundastarf s.s þátttaka í íþróttastarfi, félagsmiðstöðvastarfi, tónlistarskóla, skátum o.þ.h.
  • Foreldar og aðrir forráðamenn sem veita stuðning, umhyggju, hlýju.  
  • Eftirlit og áhugi. Að vita hvar og með hverjum ungmennið er á kvöldin og um helgar.
  • Tíma varið með foreldrum og fjölskyldu. Því meiri tími því betra.

Forvarnir á Akranesi.

Hér á Akranesi er öflugt íþrótta- og tómstundastarf.

Öll börn ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hér er einnig öflug samvinna á milli allra þeirra sem koma að starfi með börnum og ungmennum. Innan grunnskólanna er öflug forvarnarfræðsla allt árið um kring. Þar eru t.d heilsuþemavikur, fyrirlestar, sjálfstyrkingahópar og ýmislegt fleira. Umsjónarkennarar gegna stóru hlutverki í forvarnarstarfi.

Í skólanum eru tekin fyrir mikilvæg málefni þar sem kennsla er gagnvirk, sveigjanleg, umhyggjusöm og án innrætingar þar sem börn og ungmenni fá tækifæri til þess að tjá sig.

Þar eru börnin þjálfuð í félagsfærni, ákvarðanatöku, markmiðasetningu, og að standast félagsþrýsting og að setja sig í spor annarra.  Skólarnir hafa einnig fengið utanaðkomand fræðslu inn en ávallt með þeim formerkjum að sú fræðsla standist þau viðmið sem gerð eru.

Má þar t.d nefna vitundarvakningu Minningarsjóðs Einars Darra Ég á bara eitt líf.  

Brúin forvarnarhópur hefur staðið undanfarin ár fyrir forvarnarfræðslu fyrir foreldra með fyrirlestrum og fræðslukvöldum ein og sér eða í samstarfi við aðra.

Má þar nefna fyrirlestur um tölvur og tölvufíkn,  fræðsluerindi um misnotkun kannabis, lyfseðilskyldra lyfja (læknadóp), lyfjamenningu, viðhorfum og ástæðum misnotkunar slíkra lyfja svo eitthvað sé nefnt.

Þá hefur Brúin verið með erindi frá Hugarfrelsi um kvíða barna og fræðslu frá Rannsóknum og greiningu svo eitthvað sé nefnt.

Sumarið er tíminn!

Sumarið er einstaklega viðkvæmur tími í lífi ungmenna. Þá er enginn skóli og margt skipulagt tómstundastarf er í fríi. Þá er hlutverk foreldra í forvörnum enn mikilvægar en áður.

Samanhópurinn sendir foreldrum skýr skilaboð og hefur bent á að samvera foreldra og barna er besta forvörnin. Mikilvægt er að hafa  í huga að ást án aga er jafn skaðleg og agi án ástar. Leggjum ekki meiri ábyrgð á börnin okkar en þau eru fær um að axla, leiðbeinum þeim og styðjum, elskum þau óhikað og finnum okkar eigið öryggi í foreldrahlutverkinu. Höfum hugfast að það fylgir 18 ára ábyrgð með hverju barni!


Heiðrún Janusardóttir: Verkefnisstjóri æskulýðs og forvarnarmála.