Sementsstrompurinn fær andlitslyftingu og nýjan lit – sjáðu myndbandið


Niðurrifi er lokið á Sementsreitnum á Akranesi og gríðarleg breyting er á svæðinu eftir framkvæmdirnar sem hafa staðið þar yfir undanfarin misseri.

Þrátt fyrir allt niðurrifið voru framkvæmdir í gangi í morgun þegar Skagafréttir litu þar við í veðurblíðunni í morgun. Búið er að ganga frá svæðinu með snyrtilegum hætti og grasfræjum hefur verið sáð í moldina.

Hluti af Sementsstrompnum er þar enn til staðar. Starfsmaður var að mála söguminjarnar í múrsteinsrauðum lit eins og sjá má í myndbandinu og myndunum sem teknar voru í morgun.

Samkvæmt áætlun Akraneskaupstaðar verður efnt til hugmyndasamkeppni þar sem að minningu Sementsstrompsins verður gert hátt undir höfði. Þessi bútur verður í lykilhlutverki þegar að því kemur að útfæra sigurtillöguna.