Skýr skilaboð meirihlutans!


Í fyrstu setningu málefnasamnings Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra í bæjarstjórn Akraness segir að lögð verði áhersla á gott samstarf allra flokka í bæjarstjórn, vandaða og faglega stjórnsýslu og þróun á virku íbúalýðræði. Einföld og afar skýr stefna.

Á dögunum greindi félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, þingmaður norðvesturkjördæmis, frá því á samfélagsmiðlum að hann hefði átt góðan vinnudag á Akranesi þar sem hann fundaði meðal annars með bæjarfulltrúm. Ráðherrafundir sem þessir eru ávallt kærkomnir enda í mörg horn að líta í rekstri sveitarfélaga og samskiptum þeirra við ríkisvaldið. Birti ráðherrann fundi þessum til staðfestingar myndir af glaðbeittum ráðherra og bæjarfulltrúum. Reyndar bara bæjarfulltrúum meirihlutans. Þrátt fyrir setninguna góðu í málefnasamningnum var bæjarfulltrúum minnihlutans ekki boðið til fundarins og voru því fulltrúar 42% kjósenda sniðgengnir.

Tæpast hefur þessi fundur verið skyndihugdetta meirihlutans eða ráðherrans því eins og allir vita eru þeir önnum kafnir og skipuleggja sig langt fram í tímann.

Þessi framkoma meirihlutans er nýlunda í bæjarstjórn Akraness því síðasti meirihluti bæjarstjórnar lagði sig fram að kalla ávallt til fulltrúa minnihlutans þegar hagsmunamál bæjarbúa voru til umræðu.

Það er dapurlegt að velta því fyrir sér hvaða mál það voru, sem ræða þurfti við ráðherrann og meirihlutinn taldi þurfa að leyna fyrir minnihlutanum. Brjóta þannig eigin málefnasamning. Af því höfum við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins talsverðar áhyggjur.

Skilaboðin geta vart verið skýrari. Þegar ræða skal öll þau viðkvæmu mál er heyra undir félags- og jafnréttismálaráðherra kemur fulltrúum tæplega helmings kjósenda þau mál ekki við. Aukið íbúalýðræði og vönduð stjórnsýsla er bara í orði en ekki á borði meirihlutans.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Akranesi,

Rakel Óskarsdóttir,
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir,
Einar Brandsson,
Ólafur Adolfsson.