Jón Þór Hauksson er á sigurbraut sem þjálfari A-landsliðs kvenna í knattspyrnu. Liðið sigraði Slóvakíu 1-0 á Laugardalsvelli í kvöld. Þetta var annar sigurleikur Íslands í undankeppni EM og er liðið í efsta sæti riðilsins.
Jón Þór sagði í viðtali við RÚV að dagurinn hafi verið erfiður – en Sif Atladóttir, lykilmaður í liði Íslands, lék ekki í kvöld. Faðir hennar, Atli Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu og landsliðsþjálfari karlalandsliðs Íslands lést í dag eftir erfið veikindi.
„Þetta var erfitt fyrir okkur öll og ég er mjög ánægður með stelpurnar, hvernig þær héldu einbeitingu, héldu áfram og héldu trú og þær voru staðráðnar í að spila þennan leik fyrir Sif og þau gildi sem þau feðginin hafa staðið fyrir,“ sagði Jón Þór við RÚV eftir leikinn.
Skagakonan Hallbera Guðný Gísladóttir var að venju í byrjunarliði Íslands. Hún átti margar frábærar fyrirgjafir í leiknum sem sköpuðu mikla hættu fyrir framan mark Slóvakíu.
Elín Metta Jensen skoraði eina mark leiksins á 65. mínútu.