ÍA öruggt með sæti í Inkasso-deild kvenna eftir 2-0 sigur


Kvennalið ÍA tryggði sér í kvöld áframhaldandi veru í næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Inkasso-deildinni.

ÍA lagði Aftureldingu á heimavelli, Norðurálsvellinum.

Lokatölur 2-0.

Fyrra mark leiksins kom strax á 6. mínútu en það var sjálfsmark hjá Aftureldingu.

Védís Agla Reynisdóttir tryggði sigurinn með marki á 82. mínútu og þar við sat.

Á sama tíma tapaði lið Grindavíkur og féll liðið þar með í 2. deild en ÍR var löngu fallið.

ÍA er í 6. sæti með 19 stig en þetta var fimmti sigurleikur liðsins á tímabilinu.

Lokaumferðin fer fram um næstu helgi og þar leikur ÍA á útivelli gegn Tindastól á Sauðárkróki.

Niamh Coombes, markvörður, lék sinn fyrsta leik með ÍA í kvöld. Hún er írsk og hefur leikið með liði Völsungs frá Húsavík í sumar. ÍA fékk undanþágu fyrir félagaskipti hennar vegna landsliðsverkefna hjá aðalmarkverði ÍA, Anítu Ólafsdóttur.