Nánast allir kennarar við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi lýsa yfir vantrausti á skólameistarann Ágústu Elínu Ingþórsdóttur. Yfirlýsing þess efnis var send ráðherra s.l. föstudag.
Garðar Norðdahl formaður kennarafélags FVA segir í viðtali við DV að 38 kennarar af 44 hafi skrifað undir yfirlýsinguna eða 86,3%.
Alls eru 46 kennarar við FVA en tveir þeirra sóttu nýverið um skólameistarastöðuna og skrifuðu því ekki undir yfirlýsinguna.
Mikil óánægja hefur verið meðal starfsmanna skólans með störf og stjórnunarhætti Ágústu Elínar, en Ágústa Elín tók við stöðu skólameistara FVA í ársbyrjun 2015.
Ríkið hefur m.a. greitt 5 milljónir kr. í bætur og málskostnað vegna ólögmætrar ákvörðunar skólameistara að víkja Hafliða Guðjónssyni, fyrrum aðstoðarskólameistara, fyrirvaralaust frá störfum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra ákvað fyrr á árinu að auglýsa stöðu skólameistara FVA. Ágústa Elín hefur kært þá ákvörðun.