„Þessir tónleikar eru sérstök upplifun fyrir okkur og áheyrendur. Í raun erum við að taka gestina með okkur aftur í tímann. Við erum bara með einn gamlan hljóðnema eins og tíðkaðist hér á árum áður. Að mínu mati eru tónleikarnir kjörið tækifæri fyrir Skagamenn að slökkva á símanum, vera á staðnum og njóta þess að vera á tónleikum. Ég og KK ætlum að skemmta okkur og það mun smitast út í salinn, lofa því,“ segir tónlistarmaðurinn Þorleifur Gaukur Davíðsson í samtali við Skagafréttir.
Á fimmtudaginn mun „Gaukur“ og hinn eini sanni Kristján Kristjánsson, KK, stíga á sviðið á Gamla Kaupfélaginu þar sem þeir verða með tónleika sem hefjast kl. 20.00. Þeir félagar hafa verið á ferð um landið og hafa tónleikar þeirra vakið mikla athygli. Flestir landsmenn þekkja KK sem hefur á undanförnum áratugum verið einn þekktasti tónlistarmaður Íslands.
„Gaukur“ er með sterka tengingu á Akranes þar sem hann var búsettur og stundaði tónlistarnám.
„Ég er fyrst og fremst munnhörpuleikari en ég spila einnig á allskonar hljóðfæri. Ég fékk tónlistarlegt uppeldi á Akranesi þegar ég bjó á Skaganum á árunum 2003–2007. Á Akranesi hófst tónlistarferill minn. Jón Páll Bjarnason kenndi mér á gítar í Tónlistarskóla Akraness og síðar tók Eðvarð Lárusson við sem kennarinn minn. Sigþór Þorgilsson var með mig í tónlistarvali og ég var heppinn að fá að alast upp í þessu umhverfi. Ég var fljótt farinn að spila með allskonar hljómsveitum og koma fram opinberlega. Árið 2015 fór ég til Bandaríkjana þar sem ég fékk 100% skólastyrk í hinum virta Berklee College of Music í Boston. Það var gríðarleg reynsla að fara í þann skóla, byrja alveg upp á nýtt á stað þar sem ég þekki ekki nokkurn mann.“
Á tónleikunum á fimmtudag verða dagskráin fjölbreytt að sögn Gauks.
„Við bjóðum upp á gott bland í poka. Að sjálfsögðu verða mikið af þekktustu lögum KK, flest í nýjum útsendingum. Ég krydda lögin með því að spila á gamlan „Havaí-gítar“ – sem gefur lögunum nýjan og skemmtilegan blæ. Við Kristján erum með ástríðu fyrir Bluegrass tónlist. Við fáum tækifæri til þess að láta það ljós skína á svona stundum. Það er landsbyggðartónlistin í Bandaríkjunum og á því vel við þetta ferðalag okkar um Ísland. Í Bluegrass er mikið lagt upp úr röddun og ég syng harmóníur í flestum lögunum.“
Undanfarnir mánuðir hafa verið viðburðaríkir í lífi Gauks þar sem hann fékk að „djamma“ með þekktustu tónlistarmönnum veraldar.
„Ég síðustu árum hef ég flakkað mikið með íslensku hljómsveitinni Kaleo. Það er mikið ævintýri sem hefur leitt mig um alla veröld. Þeir eru að spila á risatónleikum og hituðu m.a. upp fyrir Rolling Stones í borgunum Los Angeles og Phoenix. Að upplifa það var draumi líkast og jafnframt óraunverulegt. Ég fékk að hitta goðsagnirnar í Rolling Stones – en ég hef hlustað á þá síðan ég var ungur. Eftir þessi „gigg“ fékk ég boð um að spila með bandinu hjá Stones, með spilurum eins og Darryl Jones og Chuck Leavell sem eru á toppnum í þessum bransa. Það var algjör draumur og maður lærði mikið af því.
Á undanförnum vikum og mánuðum hef ég verið mikið á Íslandi og í allskonar verkefnum. Ég og Davíð Þór Jónsson, Skagamaður og píanósnillingur, erum búnir að spila mikið saman og erum að plana tónleika á Skaganum á næstunni. Ég tek líka þátt í allskonar stúdíóvinnu og spilaði m.a. inn á nýjasta lagið með Baggalút, Í Bústað heitir það.
Hvernig er að fá að spila og túra með goðsögn eins og KK?
„Það er algjör draumur! Ég er alinn upp við að hlusta á tónlistina hans. Ég kunni því lögin hans og þurfti varla að læra þau fyrir þetta ferðalag. Tónlistin hans er mér kær, og gefur mér mikið. Við höfum náð vel saman, og skemmtum okkur vel saman að keyra um landið. Við erum alltaf að uppfæra dagskrána, og bæta við lögum, sem verða til á ferðalögunum okkar. Við syngjum alveg helling saman í bílnum,“ segir Þorleifur Gaukur Davíðsson að lokum við Skagafréttir.
Smelltu á myndina hér fyrir neðan til að kaupa miða á tónleikana: