„Foamflex er fyrir fólk á öllum aldri og sem dæmi má nefna að amma mín 72 ára elskar þessa tíma,“ segir Elísa Svala Elvarsdóttir íþróttafræðinemi og FoamFlex kennari.
Á undanförnum vikum hefur hún boðið upp á FoamFLex tíma í íþróttahúsinu við Jaðarsbakka við góðar undirtektir.
En hvað er FoamFlex?
„Það er nú bara þannig að það njóta þess allir að fá gott nudd og afhverju ekki að losa um spennuna fyrir desembermánuð og hugsa vel um sig.
FoamFlex er sjálfnuddandi aðferð þar sem unnið er með vöðva, bandvef og „triggerpunkta“.
Í tímunum notum við rúllur, mjúka og stífa nuddbolta. Við kyndum vel upp í ofnunum fyrir tímana og það er því heitt og notarlegt í þessum tímum.
Eftir allt nuddið, tökum við góða slökun í lok hvers tíma,“ segir Elísa Svala og bætir við að æfingarnar flýti fyrir bata eftir t.d. meiðsli íþróttafólks og bæti líkamsástand kyrrsetufólks.
„Foam Flex endurnærir sogæðakerfið og styrkir bandvefinn. Í tímunum er unnið á boltum og rúllum og þá er farið djúpt inn í vöðvana og náð til viðkvæmari svæða og vöðvahnúta. Foam Flex eykur blóðflæði, vinnur á þreyttum vöðvum og endurnýjar orku líkamans.“
Í nóvember verður hún með námskeið, alla fimmtudaga, frá 20:15-21:15 í parket-speglasalnum á Jaðarsbökkum. Námskeiðið kostar 4.000 kr.
Eins og áður segir er FoamFlex fyrir fólk á öllum aldri 14 ára og eldri. Og bendir Elísa Svala á að þeir sem vinni vaktavinnu geti fundið sinn „takt“ í FoamFlex tímunum og það sé hægt að leysa úr árekstrum sem koma upp í slíkum tilvikum.