„Ég hef ekki tekið þátt í neinu sem heitir leiklist. Ég er þriggja barna faðir og rafvirki að mennt sem grípur í gítar og syngur af og til í fjölskyldusamkvæmum,“ segir Þorsteinn Gíslason sem hefur slegið í gegn í fraumraun sinni sem leikari í uppfærslu Skagaleikflokksins á Litlu Hryllingsbúðinni.
„Það er alveg óhætt að segja að þetta dæmi sé alveg risastórt stökk fyrir mig. Ég er rafvirki eins og áður segir, fyrrverandi knattspyrnumaður sem hætti alltof snemma,“ segir Þorsteinn en hann hafði aldrei séð uppfærslu á leikverkinu Litlu Hryllingsbúðinni áður en hann viðurkennir að hafa þekkt nokkur lög úr sýningunni.
En hvernig stóð á því að rafvirkinn fór að feta leiklistabrautina á „gamalsaldri.“?
„Erlingur Viðarsson, sem er í stjórn Skagaleikflokksins, plataði mig á leiklistarnámskeið. Og í kjölfarið var ráðist í uppsetningu á þessu verki. Ég lét bara vaða. Markmiðið var að vinna aðeins í sjálfstraustirinu sem er ekki alltaf of mikið. Ég fór bara aldeilis vel út fyrir þægindarammann – sem gekk bara aldeilis vel.“
Þorsteinn segir að það hafi verið svakaleg upplifun að fá viðbrögð frumsýningargesta í Bíóhöllinni – „beint í æð“.
„Frumsýningin var alveg frábær og það var svakalegt „kikk“ að fá loksins hlátur og klapp úr salnum eftir allar æfingarnar. Ég fer ekkert leynt með það að ég var frekar stressaður áður en allt byrjaði en um leið og fyrsta setningin kom þá fór stressið um leið, “ segir Þorsteinn en hann vonast til þess að framlag hans í þetta verkefni efli hann á öðrum sviðum.
„Ég ætla nú bara að klára þeta verkefni sem Markús Músnik en hann gengur aðallega undir nafninu Músnik. Vonandi hjálpar þetta mér aðeins með stíga inn í sviðsljósið og spila á gítarinn og syngja fyrir einhverja aðra en konuna og börnin. Það er aldrei að vita nema að ég taki þátt í annarri sýningu hjá Skagaleikflokknum.“
Að lokum var Þorsteinn inntur eftir því hvort hann búi yfir einhverjum leyndum hæfileikum?
„Já kannski að koma öðrum á óvart og þar með sjálfum mér með því að taka þátt í þessari sýningu. Ég dansa meira að segja í þessu verki og það er vel í lagt fyrir áhugaleiklistarmann sem er rafvirki í dagvinnu,“ segir Þorsteinn Gíslason a.k.a Markús Músnik.
Uppselt er á flestar sýningar á Litlu Hryllingsbúðina en miðasalan fer fram á midi.is.