Nýr leikskóli í Skógarhverfi í útboðsferli


Nýr leikskóli verður byggður í Skógarhverfi á Akranesi á næstu misserum.

Bæjarráð Akranes samþykkti á síðasta fundi sínum útboðsgögn vegna hönnunar á nýjum leikskóla.

Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs og sviðsstjóri skipulag- og umhverfissvið eiga að fylgja málinu eftir – samkvæmt bókun í fundargerð bæjarráðs.

Alls eru fjórir leikskólar til staðar á Akranesi þar sem 441 nemandi kemst að. Mikil þörf hefur verið á leikskólaplássum og mun nýr skóli í Skógarhverfi breyta miklu í því samhengi.

Í sögulegu samhengi eru miklar líkur á því að nýi leikskólinn fái nafnið Skógarsel. En það á eftir að koma í ljós.

Akrasel er sex deilda skóli með allt að 150 börnum og um 40 starfsmenn. Akrasel leggur áherslu á umhverfismennt, jóga og hollt mataræði.

Garðasel er þriggja deilda leikskóli með um 74 börn og um 22 starfsmenn. Garðasel er heilsuleikskóli með áherslu á hreyfingu, holla næringu, listsköpun í leik og starfi og jákvæð og uppbyggjandi samskipti.

Teigasel er þriggja deilda leikskóli með um 74 nemendur og um 20 starfsmenn. Í Teigaseli er unnið að því að hvetja barnið til gagnrýninnar hugsunar og örva um leið sköpunar- og leikgleði þess.

Vallarsel er sex deilda leikskóli með um 143 nemendur og um 40 starfsmenn. Vallarsel leggur áherslu á fjölbreytt tónlistarstarf, frjálsan leik og heimspekilegar samræður í allri þemavinnu.