Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Frostbiter vex og dafnar á Akranesi


„Við vonumst til þess að sjá sem flesta og það væri frábært að sjá Skagamenn fjölmenna í frítt bíó í Tónbergi um helgina. Við fengum 275 myndir sendar inn frá 40 löndum og völdum 29 myndir af þeim lista til að sýna þannig að gæðin á myndum í ár eru talsverð,“ segir Ársæll Rafn Erlingsson sem hefur verið drifkraftur í því að koma kvikmyndahátíðinni Frostbiter á þann stað sem hátíðin er í dag.

Frostbiter kvikmyndahátíðin fer nú fram í fjórða sinn á Akranesi og hefst hátíðin í dag kl. 18:00.

Ársæll segir að það sem sé áhugvert við hátíðina að hún sé fyrsta hátíðin á Íslandi sem er sérstaklega fyrir eina stefnu af bíómyndum. Hryllingsmyndir eru þemað á hátíðinni líkt og undanfarin ár.

„Að einblína á hryllingsmyndir er nokkuð sérstakt en þekkt á hátíðum um allan heim. Hátíðin hefur verið að stækka ár frá ári og hefur gengið vel. Uppbyggingarsjóður Vesturlands hefur stutt við okkur ásamt Akraneskaupstað og gerir það af verkum að við getum haft frítt inn á hátíðina. Það eru að koma erlendir gestir til Akraness bara til að koma á litlu hátíðina okkar. Við höfum orðið vör við mikla umræðu um hátíðina og fólk verður spenntari fyrir henni ár hvert.“

Ársæll bætir því að dagskrá hátíðarinnar sé fjölbreytt og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

„Við viljum hafa dagskrá sem hentar öllum. Við erum með fyndnar hryllingsmyndir, myndir sem eru gerðar nánast bara til að bregða fólki og svo myndir þar sem er mikið blóð og læti. Við erum þó með 18 ára aldurstakmark á hátíðina þar sem myndirnar eru misjafnar og henta ekki allar yngra fólki.“

Það vekur athygli að Ársæll er sjálfur myrkfælinn en hefur víkkað sjóndeildarhringinn með aðstoð eiginkonu sinnar.

„Ég er alveg einstaklega myrkfælinn og datt ekki í hug fyrir nokkrum árum að ég myndi stofna hryllingsmyndahátíð. Lovísa, konan mín, hefur hinsvegar horft á hryllingsmyndir frá því hún var barn. Þegar Lovísa kláraði Kvikmyndaskóla Íslands þá var hún með hryllingsmyndir sem hún hafði gert þar undir hendinni og sendi inn á hátíðir. Það gekk ágætlega að koma myndum á hátíðir utan Íslands en ekki hér heima. Við gerðum þá grín að því að við myndum bara sýna þær sjálf og úr því varð Frostbiter hryllingsmyndahátíðin. Við sjáum á innsendum myndum að það var klárlega þörf fyrir svona hátíð. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn eiga fullt erindi í hryllingsbransann, enda er myrkur hérna meira en helming af árinu.“

Stórmyndir verða frumsýndar á hátíðinni í ár.

„Í ár erum við að sýna stórmyndina Frostbiter sem að hátíðin heitir eftir og kemur leikstjóri hennar frá Bandaríkjunum í heimsókn til okkar líka. Hann kemur með nýja mynd sem heitir The Wind Walker og verður hún heimsfrumsýnd í Tónbergi á laugardeginum.

Annars er frítt inn á alla viðburði og byrjar hátíðin strax á föstudaginn klukkan 19 með frábærri mynd sem heitir One must fall og er um hreinsunardeild innan lögreglunar sem sér um að hreinsa glæpavettvanga. Þar á eftir er ein af fyrstu myndunum eftir Sigurð Anton sem gerði myndirnar Webcam og Snjór og Salóme,“ segir Ársæll en nánari upplýsingar um hátíðina má með því að smella á myndina hér fyrir neðan.