Eins og áður hefur komið fram hefur leigufélagið Heimavelli selt allar íbúðir félagsins við Holtsflöt 4 og Eyrarflöt 2. Sá aðili sem keypti íbúðirnar hefur ekki í hyggju að leigja þær áfram og því hefur öllum leigusamningum verið sagt upp.
Alls eru 26 fjölskyldur í skelfilegri stöðu um þessar mundir vegna sölu Heimavalla og uppsagna á leigusamningum.
Verkalýðsfélag Akraness með Vilhjálm Birgisson formann VLFA í broddi fylkingar og bæjarstjóri Akraness, Sævar Freyr Þráinsson, hafa á undanförnum vikum unnið að því að finna lausnir í þeirri erfiðu stöðu sem komin er upp.
Vilhjálmur og Sævar funduðu með íbúum á Holtsflöt 4 og Eyrarflöt 2 í Gamla Kaupfélaginu.
Þar kom m.a fram að nú þegar hafi tekist að koma með 10 íbúðir inn á leigumarkaðinn í samstarfi við fyrirtækið Uppbyggingu en það dugir ekki til þess að uppfylla eftirspurnina. Til viðbótar þessum 10 íbúðum hefur VLFA og Akraneskaupstaður fengið 7 aðrar íbúðir sem boðnar verða til leigu.
Ýmsar aðrar leiðir eru í farvatninu en nánar má lesa um það á vef VLFA.
Á vef Verkalýðsfélags Akraness er nánar farið yfir stöðu málsins.