Bjarki Steinn vakti athygli í heimsókn sinni hjá Örebro


Það eru líkur á því að Bjarki Steinn Bjarkason, leikmaður ÍA, verði seldur frá félaginu á næstu misserum. Bjarki Steinn hefur á undanförnum vikum farið til við Norrköping í Svíþjóð, Start í Noregi og Örebro í Svíþjóð til þess að skoða aðstæður og æfa með liðunum.

Sigurður Þór Sigursteinsson framkvæmdastjóri ÍA segir í viðtali við fotbolti.net að ekkert formlegt tilboð hafi borist í Bjarka enn sem komið er.

„Eina sem við vitum er að hann stóð sig mjög vel þarna og þeir voru mjög hrifnir af honum. Síðan mun tíminn leiða í ljós hvað gerist,“ sagði Sigurður Þór Sigursteinsson, framkvæmdastjóri ÍA, við Fótbolta.net.

Bjarki Steinn er fæddur árið 2000 og hann verður tvítugur á þessu ári. Hann skoraði þrjú mörk fyrir ÍA í PepsiMax-deildinni í 20 leikjum á síðustu leiktíð.

Hinn 19 ára gamli Bjarki hefur vakið athygli hjá fleiri erlendum félögum en hann æfði með Norrköping í Svíþjóð og Start í Noregi fyrir áramót. Bjarki Steinn kom til ÍA frá Aftureldingu í Mosfellsbæ. Nann hefur leikið einn leik með U21 árs landsliði Íslands og hann á þrjá leiki með U19.