„Ég vil að skipt verði um forstjóra Landsvirkjunar áður en honum tekst að slátra þessum fyrirtækjum“


Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness lýsir yfir miklum áhyggjum af framtíð stóriðju á svæðinu við Grundartanga í pistli sem hann skrifar á fésbókarsíðu sína. Tilefnið af skrifum Vilhjálms eru fréttir þess efnis að eigendur Álversins í Straumsvík íhugi þann möguleika að hætta starfsemi sinni vegna hækkunar á raforkuverði.

Pistill Vilhjálms er hér fyrir neðan:


Nú er allt sem ég hef bent á undanfarin ár að teiknast upp og verða að raunveruleika. Ég hef skrifað margar greinar um að með græðgisvæðingu sinni sé Landsvirkjun að slátra orkusæknum iðnaði á Íslandi og setja lífsviðurværi þúsunda fjölskyldna sem byggja afkomu sína í fullkomið uppnám.

Ég vil minna á að Landsvirkjun hefur oft svarað mínum skrifum um þessi mál og þrætt eins og sprúttsalar að raforkuverð á Íslandi sé ekki samkeppnishæft við önnur lönd. Hins vegar er staðreyndin sú að eftir að Landsvirkjun náði t.d. að knýja fram nýjan raforkusamninginn við álverið í Straumsvík árið 2010 hefur fyrirtækið skilað samfelldu tapi og nemur það um 16 milljörðum til ársins 2018. Áætla má að tapið fyrir árið 2019 sé á bilinu 5 til 10 milljarðar!

Það er einnig rétt að upplýsa að Rio Tinto á einnig álver í Kanada og í dag er raforkuverðið í Kanada um 50% lægra en álverið í Straumsvík er að greiða. Eru menn svo hissa á að verið sé skoða möguleika á að loka álverinu í Straumsvík sem mun valda atvinnumissi að minnsta kosti 500 manna og töpuðum útflutningstekjum sem nemur um og yfir 60 milljörðum.

Ég spyr, ætla stjórnvöld og þingmenn að láta einokunarforstjóra Landsvirkjunar sem eftir mínum upplýsingum beitir viðskiptavini sína óbeinum hótunum að stefna lífsviðurværi þúsunda fjölskyldna í hættu og 40% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar?

Það er ekki bara að álverið í Straumsvík sé í hættu heldur einnig Elkem Ísland á Grundartanga en eins og ég hef fjallað um þá náði Landsvirkjun að knýja fram stórhækkun á raforkuverði til fyrirtækisins í fyrra, en sú hækkun nemur um eða yfir 1,3 milljörðum ári. Forstjóri Elkem hefur tilkynnt róttækan niðurskurð m.a. með fækkun starfsmanna og einnig sagt að framtíð fyrirtækisins ráðist á næstu 12 til 14 mánuðum.

Rétt er líka að rifja upp og upplýsa að í skjóli einokunar Landsvirkjunar náði LV að knýja fram gríðarlega hækkun á raforkuverði til Norðuráls sem tók gildi í 1. nóvember 2019 og nemur sú hækkun 4 milljörðum á ári.

Samtals er verið að hækka raforkuverð hjá fyrirtækjum þar sem mínir félagsmenn starfa hjá á Grundartanga um 5,3 milljarða sem er meira en öll auðlindagjöld í sjávarútvegi.

Ég vil að skipt verði um forstjóra Landsvirkjunar áður en honum tekst að slátra þessum fyrirtækjum og stefna þúsundum starfa í enn meiri hættu en nú er og eyðileggja atvinnugrein sem skapar upp undir 300 milljarða í útflutningstekjur!

https://www.facebook.com/vilhjalmur.birgisson.5/posts/3294577870570818