Það er ekki oft sem skrifaðar eru fréttir af enskum knattspyrnuliðum á bæjarmiðlinum Skagafréttir.
Árangur enska ungmennaliðsins Derby County hefur hinsvegar vakið athygli hér á landi þar sem að liðið átti í höggi í við Íslandsmeistaralið ÍA/Kára/Skallagríms í Ungmennadeild UEFA s.l. haust.
Íslandsmeistaralið ÍA/Kára/Skallagríms komst í 2. umferð keppninnar eftir stórsigur gegn Levadia Tallinn frá Eistlandi í 1. umferð keppninnar. Ekkert annað íslenskt lið hefur komist í gegnum 1. umferð keppninnar.
Englandsmeistaralið Derby County í flokki 18 ára og yngri var mótherji ÍA/Kára/Skallagríms í 2. umferð. Þar hafði Derby betur, 6-2, samanlagt.
Derby County mætti síðan stórliðinu Dortmund frá Þýskalandi í leik um sæti í 16-liða úrslitum keppninnar. Þar hafði enska liðið betur 3-1 og er þar með komið i 16-liða úrslit keppninnar.
ÍA/Kári/Skallagrímur verður með í þessari keppni haustið 2020. Liðið varði Íslandsmeistaratitil sinn í 2. flokki s.l. haust. Aðeins Breiðablik og KR hafa keppt fyrir Íslands hönd í þessari keppni áður en liðin féllu bæði úr leik í 1. umferð þegar þau tóku þátt.
Evrópukeppni unglingaliða er skipt í tvo hluta.
Í öðrum hlutanum berjast unglingalið félaganna sem komust í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og í hinum hlutanum berjast unglingameistarar víðs vegar um Evrópu.
Sigurvegararnir í riðlakeppni Meistaradeildarliða fara beint í 16-líða úrslit á meðan liðin í öðru sæti riðlana mæta þeim átta unglingameistaraliðum sem komast áfram úr annarri umferð í einum leik. Sigurliðið úr þeim leik fer í 16-liða úrslit ásamt liðunum átta sem unnu Meistaradeildarriðlana.