Ein efnilegasta körfuboltastúlka landsins á ættir að rekja á Akranes


Körfuknattleikssamband Íslands hefur á undanförnum dögum staðið fyrir glæsilegri bikarúrslitahelgi í Laugardalshöll. Úrslitaleikir fara fram í mörgum aldursflokkum auk meistaraflokka karla og kvenna.

Í 10. flokki kvenna þar sem leikmenn eru á síðasta ári í grunnskóla fór leikmaður á kostum í liði kvennaliðs Keflavíkur.

Hún heitir Anna Lára Vignisdóttir og var hún besti leikmaður úrslitaleiksins þar sem að Keflavík tryggði sér bikarmeistaratitilinn í úrslitaleik gegn Njarðvík.

Anna Lára á ættir að rekja á Akranes og á stóran ættboga hér á Skaganum.

Faðir hennar er Skagamaðurinn Vignir Elísson. Anna Lára á því ömmu og afa á Akranesi og mörg ættmenni.

Amma hennar er Jónsína Ólafsdóttir og afi hennar er Elís Þór Sigurðsson.

Körfuboltagenin eru svo sannarlega til staðar hjá Önnu Láru. Móðir hennar er Kristín Blöndal, sem var lengi í fremstu röð á landsvísu í körfubolta sem leikmaður Keflavíkur á árum áður.

Hér má sjá viðtal við Önnu Láru eftir úrslitaleikinn í Laugardalshöll.