Hvað segja bæjarfulltrúar um byggingu nýrrar innisundlaugar?

Sundfélag Akraness sendi nýverið erindi til bæjarfulltrúa og bæjarstjóra Akraness varðandi byggingu á nýrri innisundlaug við Jaðarsbakka. Þar kemur fram að sundlaugarverkefnið hafi verið á biðlista í 34 ár og er þolinmæði félagsins komin að þolmörkum.

„Sundfélag Akraness lýsir yfir áhyggjum sínum af því að áformum um nýja sundlaug á Akranesi er ítrekað slegið á frest allt frá árinu 1990. Þolinmæði félagsins er á þrotum og krefst það þess að bæjarstjórn Akraness standi við gefin loforð um nýja innisundlaug á Jaðarsbakkasvæðinu og tímasetning framkvæmda verði ákveðin hið fyrsta.“

Skóla- og frístundaráðs fjallaði fyrst um málið þann 20. nóvember s.l. og í kjölfarið var málið rætt á fundi bæjarstjórnar Akraness. Á þeim fundi kom fram að stór fjárfestingarverkefni Akraneskaupstaðar undanfarinna ára verða til þess að sundlaugarverkefnið verður áfram á biðlista hvað varðar fjármögnun.

 

Jónína M. Sigmundsdóttir.

Jónína M. Sigmundsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar tjáði sig um erindi félagsins á bæjarstjórnarfundinum.

Þar sagði Jónína m.a. að sundlaugarverkefninu hafi verið slegið á frest ítrekað en það er skoðun hennar að bygging sundlaugar sé fremst í röðinni í forgangsröðun bæjarstjórnar fyrir næstu fjárfestingarverkefi.

„Eins og staðan er í dag hefur innisundlaug fengið pláss á fjárfestingaráætlun en því miður ekki fjármagnað Það eru allir sammála um að það er brýnt verkefni að byggja góða og nútímalega innisundlaug hér á Akranesi – ekki bara meðlimum Sundfélagsins til heilla – heldur einnig skólabörnum og öllum bæjarbúum. Ég held að við horfum öll á það að þetta er mikilvægt verkefni – um leið og það rætist úr þessum efnahagsmálum og tekjur bæjarsjóðs fara að aukast að nýju þá höfum við forsendur til að setja verkefnið á framkvæmdaáætlun.

Það er ljóst í mínum huga að samkvæmt núverandi forgangsröðun bæjarstjórnar í byggingu íþróttamannvirkja þá er bygging innilaugar næst á dagskrá í röðinni. Ég veit að þetta hefur heyrst áður en mikilvægið er mjög brýnt – við erum í stórum fjárfestingarverkefnum og þurfum að klára þau áður en næstu skref verði tekin í þessari uppbyggingu. Ég tel að Jaðarsbakkaverkefnið, bygging hótels og mannvirkja fyrir knattspyrnuiðkun verða til að tefja byggingu innilaugar – innilaugina þarf að byggja samhliða þessum verkefnum útaf raski og öðru – þannig að þetta stendur hvert með öðru. Ég held að allir þeir sem sitja við þetta borð séu sammála um mikilvægi þessa verkefnis – gott að geta átt samtal með Sundfélaginu og þau eru alltaf til í frekara samtal, ég reikna með að við eigum eftir að eiga góð og uppbyggileg samtöl með þeim í framtíðinni,“ sagði Jónína.

 

Þórður Guðjónsson.

Þórður Guðjónsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins tók einnig til máls en hann lagði áherslu á að horfa þurfi með raunsæum augum á verkefnið.

„Ég fékk þann heiður að leiða starfshóp um uppbyggingu innviða á Jaðarsbakkasvæðinu í sex ár. Ég horfi mjög stoltur á þau mannvirki sem eru farin að rísa á svæðinu og er mikil lyftistöng fyrir bæjarfélagið okkar. Nýja íþróttahúsið er að rísa núna – það er alveg klárt mál í hugum okkar sem unnum í þessum starfshópi síðustu sex ár – að innisundlaugin myndi rísa í kjölfar íþróttahússins. Það er mikilvægt að skoða framkvæmdaráætlun til næstu þriggja ára Akraneskaupstaðar sem sýnir að við erum að taka hlé á framkvæmdum. Við höfum verið í gríðarlegum fjárfestingum, á annan tug milljarða sem er líklega met. Innisundlaugin er á dagskrá en hún er ekki fjármögnuð, það er gríðarlega mikilvægt að halda áfram samtalinu – raunsæum augum. Hvað getur bæjarfélagið staðið undir?, 25 metra laug eða 50 metra laug, og hvort við séum í stakk búin að fara alla leið í 50 metra laug. Það væri mjög flókið verkefni að fara í það verkefni. Mín persónulega skoðun mín er að 25 metra innilaug væri raunhæfasti kosturinn.

 

Liv Aase Skarstad

Liv Aase Skarstad bæjarfulltrúi Framsóknar og frjálsra sagði að gæta þyrfti þess að ræða málið út frá fleiri hliðum en það sem snýr að Sundfélaginu.

„Ný innilaug þarf að uppfylla þarfir margra hópa, þeirra allra yngstu, skólabarna og allra íbúa á Akranesi. Ég er sammála því að langlundargeð Sundfélagsins er mikið. Ég hefði viljað fá þetta framar í forgangsröðina, en ég er raunsæ og fjárhagur Akraneskaupstaðar er ekki á það besta.
Rekstur á 50 metra laug er vissulega hár en við þurfum að hugsa í lausnum og ég tel að það væri hægt að vera með 25 metra útilaug og 50 metra innilaug. Yfir köldustu mánuðina væri hægt að loka útilauginni 25 metra yfir köldustu vetrarmánuðina og bjóða aðeins upp að innilaugin væri opin,“ Liv Aase.

Í fundargerð Skóla- og frístundaráðs kemur fram að ráðið sýnir málinu skilning og tekur undir að bygging nýrrar sundlaugar sé mikilvæg samfélagsframkvæmd. „Öllum er ljóst að þörf er á að bæta aðstöðu til sundiðkunar á Akranesi – hvort sem er fyrir hinn almenna íbúa, til sundkennslu, endurhæfingar eða sundþjálfunar og keppni, íbúum til heilla. Fulltrúar í skóla- og frístundaráð munu fylgja málinu eftir í sínu pólitíska baklandi.“