Ýmsum samkomum hér á landi hefur verið frestað til þess að hefta útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Enn sem komið er hafa yfirvöld hér á Íslandi ekki boðað samkomubann – en sá möguleiki er fyrir hendi.
Biskupsstofa hefur m.a. kannað þann möguleika á senda fermingar vorsins út í beinni á netinu komi til þess að sett verði á samkomubann. Samskiptastjóri Biskupsstofu útilokar hinsvegar að fermingum verði aflýst.
Alls hafa 37 Íslendingar greinst með COVID-19 veiruna hér á landi. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra.
Þráinn Haraldsson sóknarprestur Garðaprestakalls á Akranesi tjáir sig um stöðu mála á Akranesi varðandi fermingarnar í svari við hugleiðingum Bjarnheiðar Hallsdóttur um þetta mál. Þráinn segir að það standi ekki til að ferma í gegnum netið á Akranesi.
„Ef það kemur til samkomubanns þá yrði fermingum frestað, fermingarveisla er líka samkoma. Hins vegar gæti það vel komið til skoðunar að senda út messu á sunnudögum til að fólk gæti fylgst með án þess að koma til kirkju. Nú gildir bara að huga að almennu hreinlæti og fylgja öðrum fyrirmælum landlæknis,“ skrifar Þráinn.