Í október árið 1984 hóf nýtt blað göngu sína á Akranesi og bar það nafnið „Allt í gríni“.
Fjórir 10 ára drengir stóðu að útgáfunni á þessum tíma, þeir Jóhann Guðjónsson, Gunnar Sturla Hervarsson, Kári Steinn Reynisson og Þórólfur „Hnulli“ Guðmundsson.
Skagablaðið fjallaði um verkefnið í blaði sínu 19. október 1984. Sögðu fjórmenningarnir m.a. frá útgáfunni en frumútgáfan kom út í 40 ljósrituðum eintökum og salan tók mikinn kipp þegar 2. tbl. kom út – en þá seldust í það minnsta 75 eintök.
Efnistökin voru laufléttir brandarar ásamt ýmsu öðru efni – þar á meðal auglýsingar.