Það var mikið að gera á Bókasafni Akraness á síðasta opnunardegi safnsins áður en safninu var lokað vegna Covid-19. Margar bækur eru í útláni um þessar mundir og eftirspurnin eftir nýjum útlánum er mikil.
Starfsmenn safnsins hafa á undanförnum dögum undirbúið „pöntunarþjónustu“ sem fer að öllum líkindum í gang í byrjun næstu viku.
Og á meðal þess sem íhugað er að gera er að bjóða upp á „óvissupoka“ fyrir þá sem vilja láta koma sér á óvart.
Í tilkynningu frá Bókasafninu kemur fram að starfsfólk safnsins geri allt sem í þeirra valdi stendur til að koma bókum út til viðskiptavina sinna – og eru ýmsar leiðir til þess eins og sjá má í tilkynningunni hér fyrir neðan.
Bókasafnið á tímum veirunnar.
Ágætu Skagamenn.
Nú er allt lokað og Bókasafnið líka. Margir voru mjög duglegir síðasta opnunardag og tóku margar bækur.
Við vekjum athygli á því að ekki þarf að hafa áhyggjur af vanskilum vegna bóka sem þið eruð með heima því öllum skiladögum hefur verið breytt í samræmi við áætlaða lokun vegna COVID19
Starfsfólk Bókasafnsins er að sjálfsögðu enn í vinnunni og við bjóðum ykkur að hafa samband í síma 433 1200 milli kl. 10.00 – 14.00 með tölvupósti [email protected]
eða á fésbókarsíðu Bókasafnsins og við reynum að leysa úr málum.
Ef þið ætlið að biðja um bók að láni þá þarf helst að vera búið að athuga á leitir.is hvort bókin sé í hillu. Þið þurfið líka að láta kennitöluna fylgja.Við munum svo í sameiningu finna hentugan tíma til að sækja bókina til okkar.
Ef þið eruð hugrökk þá getið þið beðið um ÓVISSUPOKA. Þá velur bókavörður bækur í poka. Hægt er að velja um spennusögur, ástarsögur, aðrar skáldsögur, ævisögur, barnabækur (ath, aldur þarf að koma fram).
Athugið að tímarit eru ekki lánuð.
Baráttukveðjur
Starfsfólk Bókasafnsins