Félagsmálaráðuneytið leggur til að aðalfundum húsfélaga verði frestað um allt að sex mánuði sökum samkomubanns sem er í gildi hér á landi til 4. maí hið minnsta vegna COVID-19 faraldursins. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Í lögum um fjölbýlishús kemur fram að aðalfundir húsfélaga skuli haldnir fyrir lok apríl ár hvert (59. gr. fjöleignarhúsalaga).
Samkomubannið takmarkar viðburði þar sem fólk kemur saman við 20 manns og þá þarf að tryggja að fjarlægð milli fólks sé yfir tveimur metrum.
Því getur reynst erfitt eða jafnvel ómögulegt fyrir húsfélög að halda aðalfund innan þess tímaramma sem lögin kveða á um.
Í ljósi þess að erfitt getur verið, og jafnvel óframkvæmanlegt, að halda aðalfundi hjá húsfélögum vegna samkomubannsins telur félagsmálaráðuneytið því rétt að leggja til að aðalfundum húsfélaga sem falla innan samkomubannsins verði frestað um allt að sex mánuði og lítur ekki svo á að um brot á 59. grein fjöleignarhúsa sé um að ræða.
Þó skuli allir aðalfundir húsfélaga verða haldnir fyrir lok október 2020. Þá er einnig lagt til að kjörtímabil stjórna húsfélaga verði framlengt um þann tíma sem nemur töfum á að halda aðalfund, þó aldrei lengur en til loka októbermánaðar 2020.
- Ítarlegri umfjöllun: Félagsmálaráðuneytið leggur til að aðalfundum húsfélaga verði frestað um allt að 6 mánuði vegna samkomubanns (PDF)